Verðbólga mælist 5,2% og hefur aukist meira en búist var við. Aðilar vinnumarkaðarins kenna stjórnvöldum um. Fjármálaráðherra vísar hins vegar á olíufélögin og bílasala.
Hagfræðingur segir ólíklegt að Seðlabankinn lækki stýrivexti í næstu viku.
Ráðgjöf um stóraukinn loðnukvóta var gefin út í morgun, loðnan gæti skilað 20-25 milljörðum í þjóðarbúið segir atvinnuvegaráðherra. Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir vöntun á mörkuðum eftir mögur ár og mikla vinnu framundan við að pakka loðnu og hrognum.
Bandaríkjaforseti hótar að ráðast inn í Íran ef ekki verður gengið frá nýjum kjarnorkuvopnasamningi. Líklegt þykir að Evrópusambandið setji Íranska byltingarvörðinn á lista yfir hryðjuverkasamtök.
Tilraunir HSÍ til að fá miða á undanúrslitaleiki EM hafa ekki gengið eftir. HSÍ og Icelandair geta ekki skipulagt hópferðir á viðureign Íslands og Danmerkur annað kvöld.
Stjórnvöld sektuðu elsta sjóð landsins, ölmususjóð sem Brynjólfur biskup stofnaði á sautjándu öld, fyrir að skila ekki inn ársreikningi.