Fljúgandi hálka mætti landsmönnum víða í morgun. Hún hefur valdið vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu mestum vandræðum, tugir hafa leitað á bráðamóttöku og þess eru dæmi að mannlausir bílar hafi runnið af stað.
Evrópusambandið undirbýr víðtækar fjárfestingar á Grænlandi og vill auka samstarf í öryggismálum á norðurslóðum. Þetta kom fram í ræðu forseta framkvæmdastjórnar ESB á Davos-ráðstefnunni í morgun.
Íslendingur sem býr í Bandaríkjunum segir ótta í loftinu hjá fólki sem ekki styður embættisverk Bandaríkjaforseta. Ár er í dag síðan hann tók við embætti á ný.
Ingibjörg Isaksen sækist eftir að verða formaður Framsóknarflokksins. Hún hefur ein lýst yfir framboði, kjósa á nýjan formann á flokksþingi eftir rúmar þrjár vikur.
Það kom eiganda hópferðafyrirtækis í Norðurþingi á óvart að skólaakstur frá Raufarhöfn til Öxarfjarðar hefði verið færður eiginmanni skólastjóra Öxarfjarðarskóla. Sviðsstjóri velferðarsviðs segir útboð ekki hafa komið til greina.
Ástralir hafa hert löggjöf um skotvopnaeign og hatursorðræðu eftir hryðjuverkaárás á Bondi-ströndinni í síðasta mánuði.
Ísland mætir Ungverjalandi í kvöld í lokaleik sínum í riðlakeppni EM karla í handbolta. Stigin sem vinnast í leiknum fylgja liðunum áfram í milliriðil.