Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Hópur nemenda við Háskólann á Bifröst kynnti í síðustu viku niðurstöðu rannsóknar sem hefur yfirskriftina: Þurfa konur bara að vera duglegri að bjóða sig fram? En í rannsókninni leituðu nemendurnir sem eru námi í miðlun og almannatengslum, opinberri stjórnsýslu og viðskiptafræði, svara við því hvað valdi þvi að ungar konur gefa síður kost á sér til endurkjörs í íslenskum sveitarstjórnarkosningum og hvort áreiti eða neikvæð umfjöllun á netinu hafi mögulega áhrif á það. Einar Freyr Elínarson er einn þeirra sem vann að þessari rannsókn og hann ætlar að segja okkur frá helstu niðurstöðum.
Þjóðhátíðardagur Noregs er í dag, 17. maí, og á þessum degi úða frændur okkar Norðmenn í sig pylsum eins og enginn sé morgundagurinn. Pylsur eru nefnilega aldrei vinsælli en á þjóðhátíðardeginum og dagana í kringum hann, segir í frétt norsku fréttastofunnar NTB. Talið er að þeir sporðrenni 13 milljónum pylsna í dag eða ríflega tveimur og hálfri pylsu á hvert mannsbarn. Davíð Berndsen er búsettur í Bergen í Noregi.
Meirihlutaviðræður eru komnar á fullt um land allt og eru línur farnar að skýrast víða um hvaða flokkar munu reyna að ná saman. Okkar maður Ágúst Ólafsson fréttamaður og svæðisstjóri er staddur í hljóðstofu á Akureyri. Hvernig ganga viðræður fyrir norðan, Ágúst veit allt um það mál.
Dagrún Ósk er verkefnisstjóri alþjóðlega safnadagsins sem verður haldinn hátíðlegur 18. maí og allt að 37.000 söfn í 158 löndum um allan heim taka þátt. Við heyrum í Dagrúnu í þættinum.
Vestfirðir eru víst það heitasta um þessar mundir og það berast fréttir af því að ómögulegt sé að finna sér gistingu á vestfjörðum nú í sumar. En hvað segja skipuleggjendur er þetta rétt? Díana Jóhannsdóttir starfar við skipulagsmál á Vestfjarðarstofu hún verður á línunni á eftir.
Og svo heimsótti Andri skósmiðinn Halldór Svansson í Grímsbæ en þar hefur hann starfað síðan elstu menn muna - við heyrum af því í þættinum.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.