Síðdegisútvarpið heilsar á miðvikudegi og við stýrið sitja þau Guðrún Dís Emilsdóttir og Kristján Freyr Halldórsson
Í þættinum í gær fjölluðum við um það að líkhúsið á Akureyri hefði verið auglýst til sölu eða leigu á Akureyri.net og í Morgunblaðinu og ræddum við við Smára Sigurðsson framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar sem sagði að enginn bæri ábyrgð á rekstri líkhúsa. Frá því að heilbrigðiskerfið gefur út dánarvottorð og þar til kirkjugarður tekur við hinum látna er algjört gat í kerfinu, engum ber að sjá um ferlið frá dánarvottorði til greftrunar. Ein þeirra sem bent hefur á það óefni sem þessi mál eru í hér á landi er Jódís Skúladóttir þingmaður VG og hún verður á línunni hjá okkur á eftir.
Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður fjöldahjálparstöðva hjá Rauða krossinum kemur til okkar á eftir og fer yfir stöðuna með okkur nú þegar að tæpir fimm sólarhringar eru síðan að Grindvíkingum var gert að yfirgefa heimili sín.
Á morgun á að blása til samstöðutónleika fyrir Palestínu þar sem fjöldi okkar fremsta listafólks kemur fram. Ástandið á Gaza fer versnandi með degi hverjum en her Ísraels réðst í morgun inn á Al-Shifa, stærsta sjúkrahús Gaza. Þar fyrir innan segja Ísraelsmenn að Hamas starfræki einskonar höfuðstöðvar, sem samtökin harðneita. Nokkur þúsund manns voru inni á spítalanum þegar her Ísraels réðist þar inn. Við ætlum að beina sjónum okkar að palestínumönnum í þættinum og ræða samstöðutónleikana við þá Hjálmtý Heiðdal formann félagsins Ísland - Palestína og Kjartan Holm einn skipuleggjanda tónleikanna.
Fram kom í fjölmiðlum að tónlistarmaðurinn Mugison hafi afþakkað útnefningu sem bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar og hafi Menningarmálanefnd bæjarins í kjölfarið lagt til við bæjarstjórn að áætlaðir fjármunir vegna verðlaunafjár yrðu nýttir til jólaskreytinga í sveitarfélaginu, í stað þess að falla niður. Við ræðum Pétur Óla Þorvaldsson sem situr í Menningarmálanefnd bæjarins.
Á laugardaginn var singles day í lok mánaðar er svartur föstudagur og þar á eftir rafrænn mánudagur og því finnst okkur við hæfi að taka umræðu um þessa stóru tilboðsdaga og hversu skynsamlegt það er fyrir neytendur að nýta sér öll þau tilboð sem eru auglýst. Er fólk meðvitað um það hvort að það sé að gera góð kaup á þessum dögum eða ekki og vantar fólk allt þetta dót eða er það knúið áfram af markaðsöflum. Við ætlum að ræða þessa hluti við Dagbjörtu Jónsdóttur hjá Fundið fé.
En eins og alltaf á miðvikudögum þá byrjum við á Birni Malmquist, fréttamanni í Brussel.