Vel á annan tug sprengju- eða skotárása hafa verið gerðar nærri Stokkhólmi í september og tengjast flestar átökum innan glæpagengisins Foxtrot og er yfirstandandi mánuður nú þegar orðinn sá mannskæðasti í fjögur ár þegar kemur að átökum glæpagengja í landinu. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, ávarpaði þjóð sína í gær og sagði stöðuna grafalvarlega,að gengjastríðið sem nú geisar sé án fordæma og viðlíka ástand hafi ekki sést annars staðar í Evrópu. En hvers vegna er staðan orðin svona í Svíðþjóð. Bjarni Pétur Jónsson fréttamaður hefur verið að fylgjast með þessu máli og hann kemur til okkar á eftir.
Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn á Íslandi þann 24. október 1975, til að mótmæla margvíslegri mismunun gegn konum á vinnumarkaðnum og vekja athygli á framlagi kvenna til samfélagsins. Þessi atburður vakti heimsathygli og nú er búið að gera um hann heimildarmynd sem verður forsýnd á sunnudag. Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndargerðarmaður er ein þeirra sem að þessari mynd standa hún kemur til okkar og segir frá.
Snorri Másson fjölmiðlamaður hefur stofnað fjölmiðilinn "Snorri Másson ritstjóri". Við eins og eflaust fleiri fögnum tilkomu nýrra fjölmiðla og ætlum við því að fá Snorra til okkar hingað á eftir að segja okkur betur frá því sem þarna verður á boðstólnum.
Og í kvöld snýr Gísli Marteinn aftur á skjáinn og tekur flugið á föstudagskvöldum í vetur, tekur á móti góðum gestur og fer með þeim yfir helstu atburði vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi. Berglind Festival verður með Gísla eins og undanfarin ár og þau koma til okkar í lok þáttar í smá upphitun.
Svo er það tenórinn Alexander Jarl Þorsteinsson sem uppgötvaði ástríðu sína fyrir óperu aðeins fimm ára að aldri, þökk sé föðurafa hans sem gjarnan lét hann hlusta á helstu perlur óperuheimsins frá unga aldri. Ári síðar, þá rétt orðinn sex ára hóf hann söngnám. Nú er hann á tónleikaferð um landið og við ætlum að heyra í honum hér á eftir.
Afturelding og Vestri munu mætast í úrslitaleik um laust sæti í Bestu deild karla í fótbolta næsta laugardag og leikurinn fer fram á Laugardalsvelli. Samkæmt okkar upplýsingum hefur hvorugt liðið spilað i efstu deild áður. Óðinn Svan Óðinsson kemur til okkar á eftir og spáir í leikinn.
Nýr hópur norskra kafara sem sérhæfa sig í að snorkla eða rekkafa í ám í leit að strokufiski er nú við köfun í laxveiðiám í Húnavatnssýslum. Þeir byrjuðu í gærmorgun með því að kafa í Víðidalsá og eru nú að störfum í Miðfjarðará. Rafn Valur Alfreðsson er leigutaki í Miðfjarðará og hann er á línunni.