Sendinefndir Rússa og Úkraínumanna hittust í tyrknesku borginni Istanbúl í morgun og funda nú um leiðir til að ljúka innrásarstríðinu í Úkraínu. Þetta er í annað sinn sem sendinefndirnar hittast. Ástrós Signýjardóttir fréttamaður kíkir til okkar í þáttinn en hún hefur fylgst með fréttum af fundinum í dag.
Á laugardaginn var alþjóðlegur dagur án tóbaks. Í ár beinir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og heilbrigðissamtök um allan heim sjónum að því hvernig tóbaks- og nikótíniðnaðurinn beitir markvissum og oft blekkjandi aðferðum til að gera vörur sínar aðlaðandi, sérstaklega fyrir börn og ungmenni. Jóhanna S. Kristjánsdóttir meðstjórnandi, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í tóbaks - og nikótínvörnum um Nikótínlaust Ísland kemur til okkar á eftir.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur lagt til í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar að komið verði upp upplýsingaspjaldi í Ráðhúsi Reykjavíkur um kjörna fulltrúa í borgarstjórn. Við heyrum í Magneu í þættinum.
Í gær byrjuðu í sýningu á RÚV þættir um sögu kvennalandsliðsins á Íslandi, Systraslagur heita þættirnir sem eru fimm talsins. Hannes Þór Halldórsson einn framleiðanda þáttanna kemur til okkar á eftir og segir okkur frá tilurð og gerð þáttanna.
Fyrir helgi bárust fréttir af því að Taylor Swift hefði fengið að kaupa aftur réttinn á plötunum sínum. En um hvað snýst málið ? Ingunn Lára Kristjánsdóttir fréttakona fer yfir það með okkur hér á eftir.
Appelsínugular viðvaranir taka gildi á austanverðu landinu í kvöld og í nótt. Óvissustig verður á nokkrum vegum og gæti þeim því verið lokað með skömmum fyrirvara. Við heyrum í upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar G. Pétri Matthíassyni undir lok þáttar.