Veðrið hefur ekki beint leikið við landsmenn undanfarna daga, en það hefur verið einna verst fyrir norðan þar sem snjóaði á gesti tjaldsvæða, en mígrignir nú með tilheyrandi hættu á skriðuföllum. Jóhann K. Jóhannsson slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð var á línunni hjá okkur í dag.
Sverrir Norland rithöfundur skrifaði áhugaverða færslu á FB á dögunum þar sem hann tjáði sig um nýja leikvelli í borginni sem hann sagði alla nokkuð líka og hugmyndaauðgi vantaði og meiri áskoranir í tækjavali. Sverrir kom til okkar ásamt börnum sínum þeim Ölmu og Baltasar sem höfðu mikla skoðun á þessum málum.
Veitur halda sitt fyrsta nýsköpunarfestival þessa dagana þar sem hópur skapandi fólks tekst á við áskoranir í orku- og veitumálum. Viðgangsefnin snerta okkur öll, samfélagið í heild sinni og komandi kynslóðir. Sigríður Sigurðardóttir forstöðukona Stafrænnar umbreytingar hjá Veitum kom til okkar á eftir og segir okkur betur frá.
Stefnt er á að baðstaðurinn Laugarás Lagoon í Biskupstungum verði opnaður upp úr miðju sumri. Bryndís Björnsdóttir hjá Laugarás Lagoon kom til okkar á eftir og sagði okkur frá þessu risa verkefni.
Jaxl er stoltur silfurverðlaunahafi í Evrópukeppni hot sósa, European Hot Sauce Awards. Hjónin Gréta Mjöll Samúelsdóttir og Óðinn William Lefever hafa áður sagt okkur frá tilurð hot sósanna hér í Síðdegisútvarpinu en við ætlum að hringja austur á Djúpavog af þessu tilefni og heyra hljóðið í Óðni.
Pílu og veitingastaðurinn Skor flytur starfsemi sína úr Kolastræti eftir áralangar deildur við íbúa í nærliggjandi húsum. Nýji staðurinn verður skammt frá en við ætlum að heyra í Braga Ægissyni framkvæmdastjóra Skor og fengum hann til að segja okkur af þessu máli.