Rabbarbarinn sprettur nú sem aldrei fyrr í görðum landsmanna sem margir hverjir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við alla uppskeruna. Við slógum á þráðinn til Bjarkar Bjarnadóttur hjá rabbarbarafélaginu sem veit allt um þessa plöntu.
SOS Barnaþorpin auglýstu á mánudaginn eftir Hafdísi nokkurri sem hafði verið styrktaraðili konu af indverskum uppruna sem ólst upp í SOS Barnaþorpinu í Greenfields á Indlandi en sú er á leið til landsins og langaði að hitta konuna Hafdísi sem styrkti hana á sínum tíma. Hans Steinar Bjarnason upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi kom til okkar með söguna en Hafdís mun vera fundin.
Hinsegin hátíð á Norðurlandi eystra byrjar í dag og stendur út næstu helgi. Fyrsta Hinsegin hátíðin í Hrísey var haldin árið 2023 en nú standa öll sveitarfélögin á Norðurlandi eystra að hátíðinni. Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri Hinsegin hátíðarinnar var á línunni hjá okkur og fór yfir það helsta.
Snorri Másson þingmaður miðflokksins var meðal þeirra sem kvaddi sér hljóðs á alþingi í dag, í dagskrárliðnum störf þingsins Þar vakti hann nokkra athygli fyrir umtalsefni sitt, en hann vildi ræða þá hefð að kalla heyr heyr í þingsal séu menn sammála ræðumanni. Við heyrðum í Snorra um þetta hitamál.
Felix Bergsson sat sinn síðasta fund hjá stýrihóp Eurovision-söngvakeppninnar á mánudaginn. Hann kom til okkar til að ræða þess starfslok sín og leit yfir farinn veg með okkur.
Fjölmörg samtök taka höndum saman og lýsa því yfir að árið 2025 sé Kvennaár — ár þar sem baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og vanmati á framlagi kvenna og kvára nær nýjum hæðum — en líka ár þar sem við komum saman í krafti samstöðu og dönsum, öskrum og syngjum. Þetta segir inná kvennaar.is en annað kvöld á að fagna í Hljómskálagarðinum með heljarinnar tónleikum. Inga Auðbjörg Straumland er verkefnistýra Kvennaárs 2025. Hún kom til okkar í lok þáttar.