Veiðirétthafar og veiðimenn eru margir uggandi út af eldislaxi sem hefur fundist í miklum mæli undanfarið. En hversu mikið mál er þetta? Við slógum á þráðinn til Guðrúnar Sigurjónsdóttur bónda á Glitstöðum og veiðiréttarhafa í Norðurá.
Hugleikur Dagsson hefur staðið í stappi við Facebook, þar sem spýtukallateikningar hans eru sagðar sýna nekt og vera of klámfengnar fyrir velsæmisviðmið miðilsins. Hugleikur sér fram á að verða mögulega hent af miðlinum fyrir fullt og fast, og rakti þetta mál með okkur.
Og svo kynntum við okkur drulluhlaup, sem er víst íþróttaviðburður, í Mosfellsbæ um helgina. Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri móta UMFÍ sagði okkur frá þessu
Svo eru það bílastæðamálin. Tvö ráðuneyti skoða nú gjaldtöku bílastæðafyrirtækja, en mikil óánægja hefur verið með hana við hinar ýmsu náttúruperlur, og ekki síst margföldun á bílastæðagjöldum, sem oft og tíðum blasir við ferðamönnum sem ekki greiða gjöldin innan mjög skamms tíma. Við ræddum við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Þriðja Þáttaröðin af Iceguys er að hefja göngu sína í Sjónvarpi Símans. Hannes Halldórsson leikstjóri þáttanna og Jón Jónsson Iceguys meðlimur koma til okkar í létt spjall á föstudegi.
Kolaportið mun ganga í endurnýjun lífdaga eftir að nýir rekstraraðilar taka við en það eru þeir Einar Örn Einarsson og Róbert Aron Magnússon og þeir litu við og sögðu okkur hvernig hið nýja Kolaport verður.