Loftárás Bandaríkjanna á Venesúela og handtaka Maduro, forseta landsins, hefur vakið áhyggjur um mögulega innlimun Bandaríkjanna á Grænlandi á ný.
Baldur Þórhallsson stjórmálafræðiprófessor kom til okkar.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur beðið Sjálfstæðisflokkinn og Geir H. Haarde, fyrrverandi ráðherra og formann flokksins, afsökunar á að hafa ranglega haldið því fram að flokkurinn, undir forystu Geirs, hafi fyrst innleitt erfðafjárskatt á Íslandi. Jón segir erfðafjárskattinn vera „sérstaklega vondan skatt“ og bætir við að hann sé almennt ekki hrifinn af sköttum, sem að hans mati séu of margir og oft ósanngjarnir. Jón kom til okkar.
Á síðustu vikum hefur nokkrum sinnum orðið rafmagnslaust á Tálknafirði og nú síðast á gamlársdag. Landsnet hefur flutt vestur díselvélar sem hægt er að setja af stað ef rafmagn fer af aftur en þetta hlýtur að vera óþægilegt fyrir íbúa á svæðinu svo ekki sé talað um öryggi íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Við hringdum vestur og heyrðum í Nönnu Lilju Sveinbjörnsdóttur sem er starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð.
Ruben Amorim var í morgun rekinn sem þjálfari Manchester United á Englandi. Darren Fletcher tekur við liðinu til bráðabirgða.
Ruben Amorim tók við Manchester United í nóvember 2024 eftir að Erik ten Hag var látinn taka pokann sinn.
Alexander Tonini og Elvar Geir Magnússon frá fotbolti.net mættu til okkar.
Síðastliðin föstudag hóf Reykjavíkurborg snjóframleiðslu í Ártúnsbrekku. Það vita kannski ekki allir að þar er skíða og sleðabrekka með langa og mikla sögu. Stefán Pálsson sagnfræðingur veit meira um málið.