Ása Berglind Hjálmarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar er fyrsti flutningsmaður tillögu um að forsætisráðherra verði falið að endurskoða fánatíma þannig að heimilt sé að draga þjóðfána íslendinga að húni eftir miðnætti og fyrir klukkan sjö að morgni á sumrin. Ása Berglind var á línunni hjá okkur en hún er stödd á Cop 30 sem er loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna en ráðstefnan er haldin í Belem í Brasilíu.
Við settum okkur í samband við Atla Stein Guðmundsson blaðamann Morgunblaðsins og fréttaritara Síðdegisútvarpsins og hann færði okkur fréttir af norðurlöndunum.
Út er komin skýrslan - Í takt við tímann – íslenski peningaleikjamarkaðurinn í alþjóðlegum samanburði og leiðin að sjálfbærum markaði. Skýrslan er gefin út af Happdrætti Háskóla Íslands og fjallar um vaxandi umfang ólöglegra peningaleikjasíðna á Íslandi og þær víðtæku og alvarlegu afleiðingar sem starfsemi þeirra hefur í för með sér. Til að bregðast við þessari stöðu eru í skýrslunni dregnar fram raunhæfar leiðir til úrbóta sem byggja á reynslu annarra Evrópuríkja og geta nýst sem viðmið fyrir íslensk stjórnvöld. Við rýndum í skýrsluna og fórum yfir þessar leiðir til úrbóta með Bryndísi Hrafnkelsdóttur forstjóra HHÍ og Kristjáni Hjálmarssyni skýrsluhöfundi.
Stærsti viðburður ársins hjá Almannaheillum fer fram í Hörpu á morgun, ráðstefnan Fundur fólksins. Við forvitnuðumst um hvað þarna mun fara fram og fengum til okkar Hildi Tryggvadóttur Flóvenz og Jón Aðalstein Bergsveinsson sem bæði eru í stjórn Almannaheilla.
Maðurinn sem elskar tónlist er heimildarmynd sem segir frá ævi og störfum Þóris Baldurssonar og yfirgripsmiklum og litríkum ferli hans í íslenskri og alþjóðlegri tónlistarsögu. Í myndinni ferðast hann um heiminn, hittir gamla samstarfsmenn og rifjar upp tímana þegar hann var hluti af þróun diskó- og popptónlistar á sjöunda og áttunda áratugnum. Jóhann Sigmarsson, leikstjóri kom til okkar
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta spilar við Serbíu í kvöld í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2027. Leikurinn er jafnframt fyrsti leikur undir stjórn nýs þjálfara. Pekka Salminen tók við liðinu í mars og hefur því þurft að bíða ansi lengi eftir fyrsta leik sínum. Verkefnið í kvöld er verðugt því Serbía er meðal sterkustu liðanna sem taka þátt í þessari fyrstu umferð undankeppninnar. Benedikt Guðmundsson, körfubolta þjálfari, spekingur og lýsari kvöldsins var á línunni.