Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar á morgun kl. 11. Ástæðan er fjölgun kórónuveirusmita en fimm greindust í gær með veiruna - öll utan sóttkvíar. Þar af voru þrjú bólusett. Hvað þýðir þetta og kallar þetta á aðgerðir á nýjan leik nú um hásumar þegar ferðamenn flykkjast til landsins, Íslendingar í sumarfríum eru á ferð og flugi og fjölmenn mannamót eru á dagskrá um allt land? Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir verður á línunni.
Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakklands, er haldinn hátíðlegur í dag 14.júlí. Enn eru takmarkanir í gildi þar í landi svo hátíðarhöld verða enn með óvenjulegu sniði. Róbert Róbertsson veitingamaður er búsettur í París og ætlar að segja okkur hvernig stemningin er.
Íslenska fyrirtækið Svarmi, sem hefur sérhæft sig í kortlagninu og mælingum með drónum, eru ásamt Strætó stórir þátttakendur í Evrópuverkefni um sjálfvirka dróna sem nota Strætó sem ?dokkur? til að hlaða sig og ferðast á milli staða. Kolbeinn Ísak Hilmarsson framkvæmdastjóri Svarma segir okkur meira.
Icelandair Group ætlar í samstarf við tvö fyrirtæki sem vinna að því að útbúa farþegaflugvélar sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum; rafmagni og vetni. Stefnan er að flugvélar sem notaðar eru í innanlandsflugi verði rafmagns- eða vetnisvélar. Jens Þórðarson framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá Icelandair segir okkur meira.
Nokkuð hefur borið á því að fólk stökkvi út í ískalda jökulána í Stuðlagili. Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg talar við okkur um hætturnar sem fylgja því að stökkva út í ískaldar jökulár eins og gerist reglulega í Stuðlagili.
Sundballethópurinn Eilífðin, sem samanstendur af systrunum Margréti Erlu og Vigdísi Perlu Maack, stendur fyrir sundballettímum í sundlaugum Reykjavíkur í sumar. Þar fá sundgestir að læra ýmis balletttrix eins og mynsturæfingar, kertastjakann, sumarbústaðinn og snjókornið. Margrét Erla Maack, fjöllista og fjölmiðlakona, verður á línunni og segir okkur frá sundballett.