Meðal breytinga sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á landamærunum er heimild til að vísa fólki í sóttvarnahús ef það getur t.d. ekki gert grein fyrir hvar það ætlar að vera í sóttkví eða einangrun. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður Farsóttarhúsanna verður á línunni hjá okkur og segir okkur hvernig þetta leggst í hann.
Við ætlum að forvitnast um hvernig öskudagurinn verður haldinn hátíðlegur á morgun. Hann er með breyttu sniði þetta árið og virðist hvert bæjarfélag sníða sér stakk eftir vexti. Síðdegisútvarpið tekur stöðuna víðsvegar um landið og heyrir í Elvu Óskarsdóttur í Hveragerði, Guðrúnu Helgu Sigfúsdóttur í Háteigsskóla í Reykjavík, Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur á Hólmavík og Sigríði Hrönn Gunnarsdóttur á Reyðarfirði.
Búið er að bólusetja rúmlega 15 milljónir Breta við Covid-19 sem telst fjórðungur þjóðarinnar. Þetta vekur vonir um að hægt verði að hefja afléttingu þeirra hafta sem eru í gildi vegna veirunnar. Margir vonast því til þess að útgöngubanninu verði aflétt í byrjun mars. Það er, að hægt verði að leyfa fólki að fara til skóla, vinnu og opna verslanir að nýju. Við heyrum í Sigurði Sverrissyni sem býr og starfar í Liverpool um stöðuna þar í landi.
Þennan dag árið 1981, fyrir 40 árum semsagt, gekk Engihjallaveðrið sem svo hefur verið kallað, yfir. Veðrið er kennt við Engihjalla í Kópavogi þar sem bílar fuku til á bílastæðum. Einar Sveinbjörnsso veðurfræðingur ætlar að rifja þetta upp með okkur á eftir.
Við heyrum í nýjum landsliðsþjálfara kokkalandsliðsins Ara Þór Gunnarssyni.
En við byrjum á G- vítamíni en undanfarnar vikur hefur Geðhjálp boðið landsmönnum upp á 30 skammta af G-vítamíni í formi ráðlegginga sem er ætlað að bæta geðheilsu. Dagatal með G-vítamínsskömmtum var sent á hvert heimili á Íslandi. Auk þess er hægt að nálgast dagatalið í völdum sundlaugum og verslunum um allt land. Átakinu lýkur á föstudag. Elín Ebba Ásmundsdóttir er framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs.