Víðsjá

Norska húsið Stykkishólmi, Halldór Smárason, Við Djúpið, Ljóð og vinir

Tónlistarhátíðin Við Djúpið var stofnuð fyrir 20 árum síðan en þar nýtur fólk saman tónlistar um það leyti þegar sól er hæst á lofti á Ísafirði. Hátíðin hefst á laugardaginn, 17. júní, og stendur yfir til 21.júní. Ýmis námskeið verða þar á dagskrá sem og yfir 10 tónleikar þar sem tónlistarfólk úr ólíkum áttum flytur fjölbreytta klassíska tónlist.

Halldór Smárason tónskáld er einn þeirra sem frumflytja þar nýja tónlist, en hann hefur sterkar taugar til hátíðarinnar, enda Ísfirðingur og hefur oft tekið þátt. Halldór hefur komið víða við í tónlistarlífinu frá því hann lauk framhaldsnámi frá Manhattan School of Music árið 2014, bæði sem tónskáld, útsetjari og píanisti. Hann hefur unnið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Útvarpshljómsveitum Parísar og Stuttgart auk margra af þekktustu kammersveitum heims. 2020 kom út hans fyrsta hljómplata, STARA, undir merkjum bandaríska útgáfufyrirtækisins Sono Luminus. Halldór verður gestur okkar í þætti dagsins og segir okkur frá sínum tónsmíðum og tengingu sinni við hátíðina Við Djúpið.

Norska húsið í Stykkishólmi er elsta tvílyfta íbúðarhús landsins, reist úr tilsniðnum viði frá Noregi 1832. Það er í dag byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Við heimsækjum Norska húsið í dag og heyrum af og nýrri grunnsýningu sem er þar í vinnslu og gert er ráð fyrir verði opnuð síðar í sumar. Við heyrum í safnstjóranum, Hjördísi Pálsdóttur og Önnu Melsted sem er meðal þeirra sem vinnur nýju sýningunni.

Íslensk skáld eru ekki í neinum sumardvala og hér í miðbæ Reykjavíkur verður mikið rennerí í Mengi þegar ljóðskáld lesa upp eitt af öðru - upplestrarserían Ljóð og vinir hefst á morgun. Á bak við þessa ljóðaröð eru Svikaskáld, Brynja Hjálmsdóttir og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Frumflutt

13. júní 2023

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Víðsjá

Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Tómas Ævar Ólafsson.

Þættir

,