Spegillinn 5.október 2022
Fiskiskip strandaði í innsiglingunni á Raufarhöfn í dag eftir að það rak undan sterkum vindi. Vel gekk að koma skipinu á flot.
Sænskur grínþáttur hefur valdið fjaðrafoki í Tyrklandi vegna gríns á kostnað forseta Tyrklands. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa boðað sendiherra Svíþjóðar á fund vegna málsins, sem gæti haft víðtækar afleiðingar.
Menntamálaráðherra hefur boðað alla skólameistara framhaldsskóla á sinn fund til að fara yfir viðbragðsáætlanir þeirra við kynferðisofbeldi. Rektor Menntaskólans við Hamrahlíð bað fyrrverandi nemanda skólans í dag afsökunar á viðbrögðum skólastjórnenda við ásökunum hennar um ofbeldi af hálfu samnemanda.
Mælingar sýna að andlegri líðan ungmenna hefur hrakað hér á landi. Talið er að svefnleysi og samfélagsmiðlanotkun eigi stóran þátt í þessari þróun. Forvarnadagurinn er í dag.
-------
Eins og fingri væri smellt var kosningabaráttan í Danmörku komin á fullt skrið nánast um leið og Mette Frederiksen greindi frá því í morgun að að kosið yrði til þings í landinu fyrsta nóvember. Hún sagði þegar hún tilkynnti ákvörðun sína að það væri vissulega undarlegt að Danir gengju til þingkosninga á ótryggum tímum jafnt innanlands sem utan, en þetta væri vilji meirihluta danska þingsins. Því hefði hún farið á fund Margrétar Þórhildar drottningar í morgun og tilkynnt henni að kosningar væru fram undan.
Stýrivextir hækkuðu í morgun um 0,25 prósent. Þeir eru nú komnir í 5,75 prósent og hafa ekki verið hærri síðan 2016. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að þrátt fyrir að verðbólga hafi hjaðnað frá ágústfundi nefndarinnar, hafi undirliggjandi verðbólga og óvissa hins vegar aukist. Greinendur spáðu því að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 til 0,5 prósent. Verðbólga er langt yfir markmiði Seðlabankans um tveggja og hálfs prósenta verðbólgu, mælist nú um 9,3 prósent.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vonar að þetta sé seinasta stýrivaxtahækkunin, en bankinn hefur hækkað vexti í seinustu níu stýrivaxtaákvörðunum sínum. Hann segir að áhrifa hækkana stýrivaxta sé farið að gæta hér á landi, en efnahagshorfur utan landsteinanna gefi tilefni til að vera á varðbergi. En hvað kallar á hækkun stýrivaxta nú?
Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti Alþýðusambandsins vonar að sátt náist innan verkalýðshreyfingarinnar eftir þing sambandsins sem haldið verður í næstu viku og nýr forseti kjörinn. Framundan eru stórar samningalotur og hann kysi frekar að einfalda verkfallsboðun en að auka vald ríkissáttasemjara.
Umsjónarmaður: Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Mark Eldred.
Stjórn fréttaú