Mörg þúsund manns hafa horft á myndbönd þar sem tálbeita þykist vera stúlka á barnsaldri og lokkar fullorðna íslenska karlmenn til þess að hitta sig. Lögregla segir þetta geta verið varasamt og bendir á að einungis þeir sem fari með lögregluvald hafi heimild til þess að fara í tálbeituaðgerðir.
Forseti Alþingis vill að kjördæmum verði fjölgað. Það myndi jafna vægi atkvæða í kosningum. Aftur á móti vill hann ekki fjölga þingsætum.
Þrátefli er í fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem hópur harðlínumanna úr Repúblikanaflokknum kemur í veg fyrir að hægt sé að kjósa forseta þingsins.
Langvarandi vera í mengun sem fer yfir heilsuverndarmörk getur haft slæm áhrif á heilsufar. Engin fordæmi eru fyrir því að farið sé jafn oft yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu og núna fyrstu daga ársins.
-----
Vandræðaástand er komið upp í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þingmenn Repúblikana geta ekki komið sér saman um hver verður næsti forseti deildarinnar. Þeir náðu naumum meirihluta í kosningunum áttunda nóvember, hafa þar 222 sæti á móti 212 sætum Demókrata. Þar með var ljóst að dagar Nancyar Pelosi í því embætti væru senn taldir. Hún gegndi því á árunum 2007 til 2011 en tók við embættinu að nýju í janúarbyrjun 2019. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Mörg okkar þurfa lyf af ýmsu tagi. Lyfjaskortur hefur verið viðvarandi í landinu. Samkvæmt lista Lyfjastofnunnar eru 156 lyf á lista yfir lyf sem skortur er á, bæði til lengri og skemmri tíma . Og þegar svo er þarf oft að grípa til samheitalyfja. Marga hryllir við þeim en lyfjafræðingur segir að fólk falli oft í þá gryfju að dæma þau fyrirfram, jafnvel út frá umtali fólks í kringum sig. Samheitalyf eru í rauninni sama kakan, nema bara uppskriftin er ekki nákvæmlega sú sama. Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir er lyfjafræðingur. Bjarni Rúnarsson ræddi við hana.
Er orðið fiskari orðskrípi rétttrúnaðarkirkju sem vil afmá kyn úr íslensku máli eða gott og gegnt orð sem lengi hefur verið notað um þau sem draga fisk úr sjó. Síðustu daga hefur skapast umræða um þá breytingu í lögum að ekki er lengur talað um þá sjómenn sem stunda veiðar sem fiskimenn heldur sem fiskara. Brynjólfur Þór Guðmundsson fjallar um málið.
Dómarinn sakar eiginkonu sína um að vilja sér illt. Hún eitrar reglulega fyrir honum. Segir hann. Aðrir telja að dómarinn sé genginn af vitinu. En hvað á að gera við dómara sem hagar sér undarlega? Enginn hefur rétt til að segja dómara upp störfum. Þetta er mál málanna í Noregi núna og varðar grundvallaratriði í stjórnskipun landsins: Aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds. Gísli Kr