Spegillinn 22. desember 2022. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon. Stjórn útsendingar fréttahluta: Margrét Júlía Ingimarsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir mikilvægt að sátt hafi náðst við Erlu Bolladóttur og greiða henni bætur vegna gæsluvarðhalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Erla segist loksins vera laus úr málinu. Andri Yrkill Valsson tók saman.
Jóhannes Gissurarson, oddviti Skaftárhrepps hefur áhyggjur af að gengið sé of langt í tillögu umhverfisstofnunar um friðlýsingu vatnasviðs Skaftár vegna Búlandsvirkjunnar. Ásta Hlín Magnúsdóttir talaði við hann og Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur landeiganda í Skaftárhreppi.
Fimm konur voru handteknar í Kabúl í Afganistan í dag fyrir að taka þátt í mótmælum vegna banns talibana við að konur fái að læra í háskólum landsins. Róbert Jóhannsson sagði frá.
RÚV og Matvælastofnun voru sýknuð af skaðabótakröfu Brúneggja í dag. Eigendum Brúneggja var gert að greiða háan málskostnað beggja aðila, sem fá fordæmi eru fyrir. Oddur Þórðarson sagði frá.
Hamborgarhryggurinn er langvinsælastur á matborðum landsmanna á aðfangadagskvöld. Lambakjöt, annað en hangikjöt, kalkúnn, rjúpur og nautakjöt koma þar á eftir. Jólaverslunin gengur vel og ösin afar mikil en faraldurinn setti svip sinn á síðustu jól. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók saman og talaði við Alexander Þórsson verslunarstjóri Bónuss á Smáratorgi.
------------
Samninganefndir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hittast á fundi milli jóla og nýárs. SA hafnaði nýrri kröfugerð Eflingar í morgun og ítrekar að SGS samningurinn sé viðmiðið en það getur Efling ekki fallist á.
Það er brostið á með óveðri í vesturhluta Bandaríkjanna. Aðstæður eru sagðar geta orðið lífshættulegar, einkum í mið- og austurríkjunum, þar sem vindkælingin getur farið niður í fjörutíu stiga frost og jafnvel sextíu á einstaka stöðum. Við slíkar aðstæður kelur fólk á innan við fimm mínútum. Veðrið gæti raskað ferðum milljóna manna. Ásgeir Tómasson sagði frá. Rætt við Veronicu Wyman flugfarþega, og eiganda byggingarvöruverslunar í Portland í Oregon.
Á hverjum sólarhring leita tugir fólks skjóls í neyðarskýlum í Reykjavík, ekki síst nú þegar veturinn er brostinn á af fullum þunga. Í síðustu úttekt Reykjavíkurborgar á fjölda heimilislausra, sem gerð var í október í fyrra, voru 87 konur heimilislausar og 214 karlmenn. Í sumar jókst aðsókn í gistiskýlin til muna svo ætla má að þessar tölur séu hærri núna. Bjarni Rúnarsson talaði við Heiðu Björg Hilmisdóttur, borgarfulltrúa (S) sem situr í velferðarráði.