Umsjón: Ásgeir Tómasson
Tæknimaður: Mark Eldred
Minnilhutinn í borgarstjórn Reykjavíkur segir að hugrekki vanti í hagræðingartillögur meirihlutans. Niðurskurðurinn bitni mest á þeim sem síst skyldi. Listasafn Reykjavíkur ætlar að fækka sýningum. Ekki sé hægt að fækka starfsfólki. Sólveig Klara Ragnarsdóttir sagði frá og talaði við Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Hildi Björnsdóttur. Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur sagði frá viðbrögðum safnsins við niðurskurðarkröfum borgarinnar.
Andinn á loftslagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna í Eygyptalandi var annar og ekki eins bjartsýnn og í Skotlandi í fyrra segir Helga Barðadóttir, aðalsamningamaður Íslands. Umhverfið er allt annað og stríðsrekstur í heiminum hefur áhrif á orkumálin. Í Egyptalandi vannst þó varnarsigur að hennar sögn. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Helgu.
Landsréttur sneri í dag við sýknudómi yfir Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, og dæmdi hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni.
Þingið í Suður-Afríku ræðir hvort svipta beri Cyril Ramaphosa forseta embætti fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína. Hallgrímur Indriðason sagði frá.
Á þriðja hundrað börn á flótta verða á Íslandi yfir jólin og hafa aldrei verið fleiri. Hjálparsamtök sem gefa börnunum jólagjafir þiggja viljugar hjálparhendur í verkefnið sem er stórt í ár. Hafdís Helga Helgadóttir ræddi við Semu Erlu Serdar um verkefnið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti í dag bandaríska stjórnmálamenn til þess að taka skýra afstöðu gegn gyðingahatri. Nokkrir dagar eru síðan forveri hans í embætti, Donald Trump, bauð þekktum afneitara helfararinnar í heimsókn á heimili sitt í Flórída og það vakti mikla reiði.
Alvarlegur sjúkdómur er kominn upp í hrossum. Hann er óþekktur en einkennin eru býsna svæsin. Veikin greindist í 13 hrossum í 30 hrossa útigangsstóði á Suðurlandi, og þar af drápust sex þeirra sem sýktust. Bjarni Rúnarsson ræddi við Sigríði Björnsdóttur dýralækni hjá MAST um sjúkdóminn
Poppstjarnan Elton John heldur sína síðustu tónleika á ferlinum næsta sumar. Ásgeir Tómasson leit yfir feril hans í lok Spegilsins.