Spegillinn 19. október 2022
Sóttvarnalæknir Bandaríkjanna varar við nýjum afbrigðum kórónuveirunnar. Tíu hafa greinst með þau hér. Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir, segir ekki víst að afbrigðin séu skæðari en önnur.
Ung stúlka í Hafnarfirði sem lögð hefur verið í einelti reyndi að svipta sig lífi. Hún þorir ekki að mæta í skólann
Ekki liggur ljóst fyrir hvort að Guðrún Hafsteinsdóttir taki við Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra á miðju kjörtímabili. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir Guðrúnu þó fá sæti við ríkisstjórnarborðið eins og lofað var.
Innanríkisráðherra Bretlands hefur sagt af sér eftir að hafa notað persónulegt tölvupóstfang í vinnunni. Tveir ráðherrar hafa vikið úr ríkisstjórn Liz Truss á rúmum sex vikum.
Forseti Rússlands hefur lýst yfir herlögum í héruðunum fjórum í Úkraínu sem hann segist hafa innlimað í ríki sitt í síðasta mánuði. Öryggisráðstafanir verða hertar um allt Rússland.
Lengri umfjöllun:
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti í dag yfir herlögum í héruðunum fjórum í Úkraínu sem hann tilkynnti formlega um í lok síðasta mánaðar að hann hefði innlimað í ríki sitt. Öryggisráðstafanir verða hertar í öllum héruðum Rússlands, sérstaklega þeim sem liggja að Úkraínu.
Ef til kastanna kemur eru litlar birgðir til af mat og aðföngum hér á landi. Olíubirgðir eru ekki miklar og ef þær þrýtur stöðvast hjól landbúnaðar og sjávarútvegs mjög fljótt. Innlend framleiðsla er mjög háð innflutningi, bæði á áburði, fræjum og aðföngum af ýmsu tagi. Það eru engar reglur um neyðarbirgðir af mat, olíu, eða aðföngum til innlendrar framleiðslu. Stríðið í Úkraínu og heimsfaraldur hafa séð til þess að að fólk um víða veröld finnur vel fyrir því hvað gerist þegar aðfangakeðjan hikstar. Fjallað var um fæðuöryggi í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi. Gunnar Þorgeirsson er formaður Bændasamtaka Íslands.
Margir klóra sér enn í kollinum og velta fyrir sér hvers vegna Katar varð fyrir valinu sem gestgjafar Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2022. Tuttugu og tveggja manna framkvæmdanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins - FIFA - ákvað þetta fyrir 12 árum. Þá var vitað að engir fótboltainnviðir væru í landinu og að farandverkafólk byggi þar við hörmulegar aðstæður bæði hvað varðar laun og mannréttindi. Við höfldum áfram að fajlla um Katar og HM í fótbolta sem hefst 20. nóvember. Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka hefur sérhæft sig í fjármálum knattspyrnuheimsins.
Umsjón: Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Mark Eldred.
Stjórn fréttaútsendingar: Valgerður Þorsteinsdóttir