Börn á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði voru beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi, að því er fram kemur í nýrri skýrslu. Í viðtölum sögðust fjölmörg börn hafa upplifað óttastjórnun, harðræði og niðurbrot.
Ekki hafa færri kórónuveirutilfelli greinst á heimsvísu frá í mars 2020. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir endalok faraldursins í sjónmáli. Pétur Magnússon tók saman.
Magdalena Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar hefur viðurkennt ósigur eftir þingkosningar um helgina. Hún boðaði afsögn sína á blaðamannafundi síðdegis. Fylking hægri flokka á nú í stjórnarmyndunarviðræðum. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir sagði frá.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands styður aukið eftirlit með hvalveiðum. Stjórnarmaður í sambandinu segir mikilvægt að gögn sem fáist með eftirlitinu verði gerð opinber. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir talaði við Sigurstein Másson, stjórnarmann í Dýraverndarsambandinu.
Starf alþjóðlegu mannúðarsamtakanna Læknar án landamæra er ekki algjörlega áhættulaust en reynslan sem fæst engu lík, segir Helena Jónsdóttir starfsmaður samtakanna. Amanda Guðrún Bjarnadóttir tók saman.
Um 200 heilbrigðisstofnanir og yfir 1.400 sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa undirritað áskorun á ríki heims um að gera bindandi samkomulag um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þeir segja mannkynið verða að velja á milli heilsunnar eða jarðefnaeldsneytis. Róbert Jóhannsson sagði frá.
Fasteignamarkaðurinn er að stillast og íbúðum í sölu að fjölga, en þörf fyrir íbúðarhúsnæði er mikil og ekki útlit fyrir að úr henni dragi segir aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka.
Evrópusambandið ætlar að skattleggja arðgreiðslur orkufyrirtækja og nota peninginn til að lækka svimandi orkureikninga heimila og fyrirtækja. Orkuverð í Evrópu hefur rokið upp eftir að Rússar takmörkuðu gassölu til álfunnar. Á sama tíma skila orkufyrirtæki methagnaði. Alexander Kristjánsson sagði frá.
Mikilvægt er að huga að heilbrigðisstarfsfólki þegar alvarleg atvik koma upp í heilbrigðisþjónustu, segir formaður fagráðs Landspítala. Fagráð Landspítala stóð fyrir málþingi um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu í dag. Kristín Sigurðardóttir ræddi við Mörtu Jóns Hjördísardóttur, formann fagráðs Landspítala.
Umsjónarmaður: Alexander Kristjánsson.
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir