Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.
Umsjón: Ásgeir Tómasson
Tæknimaður: Gísli Kjaran Kristjánsson
Tólf hafa smitast af apabólu hér á landi, þar af tveir í þessum mánuði, segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. Allir sem hafa greinst með apabóluna hér á landi eru karlmenn á aldrinum þrjátíu til fimmtíu ára. Urður Örlygsdóttir ræddi við hana.
Öllum hátíðahöldum hefur verið aflýst í Úkraínu í tilefni þjóðhátíðardagsins á morgun. Varað er við árásum rússneska innrásarliðsins á lífæðar samfélagsins og stjórnsýslubyggingar. Ásgeir Tómasson fer yfir helstu tíðindi frá Úkraínu.
Þau tæpu 100 kíló af kókaíni sem fundust í vörusendingu í Hollandi voru á leið hingað til lands frá Brasilíu. Gæsluvarðhald hefur verið framlengt yfir þremur þeirra sem eru í haldi.
Fóðurpramminn sem náðist upp af botni Reyðarfjarðar í gær er að öllum líkindum ónýtur. Ágúst Ólafsson ræddi við Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóra Laxa, fiskeldis.
Gengi evru gagnvart bandaríkjadollar hefur lækkað um fimmtán prósent á einu ári og ekki verið lægra í tuttugu ár. Alexander Kristjánsson ræddi við hagfræðing Stefnis um ástæðurnar.
Raforkuverð í Suður-Svíþjóð hækkar stöðugt og hefur aldrei verið hærra en nú. Verð á hverja kílóvattsstund hér á landi er um það bil einn tuttugasti hluti af því sem það kostar í Svíþjóð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Kára Gylfasonar í Svíþjóð.
Samkvæmt tillögum að nýrri Hamarshöll í Hveragerði á þar að rúmast knattspyrnuvöllur, fjölnota íþróttagólf, fimleikaaðstaða og áhorfendastúkur. Oddur Þórðarson sagði frá.
Unnið er í samvinnu þriggja ráðuneyta að betrumbótum í málefnum fanga og geðheilbrigðisþjónustu, segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðuneytið vinni að því að efla lögreglu á landsbyggðinni með því að fela þeim fleiri verkefni. Þórdís Arnljótsdóttir ræddi við hann og Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna sem tekur undir með ráðherra að þörf sé á að efla lögregluembættin úti á landi.
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.