Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Mark Eldred. Stjórn útsendingar fréttahluta: Valgerður Þorsteinsdóttir.
Krabbameinsfélagið hefur hætt við að gefa 450 milljónir til nýrrar krabbameinsgöngudeildar á Landspítalanum og segist engin viðbrögð hafa fengið við tilboði sínu. Urður Örlygsdóttir talaði við Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags íslands.
Danir kjósa í dag um hvort þeir eigi að taka þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins, útgönguspár birtast klukkan sex. Björn Malmquist sagði Önnu Kristínu Jónsdóttur frá.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir mikla hagsmuni í húfi með aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. Hún mælti fyrir tillögu á Alþingi í dag sem heimilar ríkisstjórninni að staðfesta samninga við NATO um aðildina.
Fjöldi landsbyggðarfólks er ósátt við verð og þjónustu í innanlandsflugi eftir að Icelandair tók það yfir af dótturfélagi. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir óverulega hækkun hafa orðið á fargjöldum en sveigjanleikinn sé minni en áður var. Urður Örlygsdóttir talaði við Boga.
Skipstjóri á Vestmannaey VE, sem er í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar, hefur verið sektaður um 700 þúsund krónur fyrir ólöglegar veiðar á lokuðu svæði. Rúnar Snær Reynisson sagði frá.
------------
Ferðaþjónustan er komin á mikið skrið og gistinætur á hótelum voru fimm sinnum fleiri í apríl en þær voru í fyrra. En þó að viðsnúningurinn virðist skarpur og jafnvel hraðari en búist var við blasir líka við að mönnun getur orðið erfið og miklar hækkanir orðið til dæmis á eldsneyti sem skilar sér beint inn í ferðakostnað, hvort sem er í verði á flugmiðum eða bensíni. Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir að fjöldi ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll sé farinn að nálgast það sem var fyrir faraldurinn. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hann.
Í Uvalde í Texas, bæ þar sem jarða á ellefu börn sem dóu í skólanum sínum í vikunni eru menn líka farnir að velta því fyrir sér hvað á að gera við skólahúsið sem verður nú alltaf tengt þessum sorgaratburðum. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir segir frá.
Fimmtán ár eru í dag síðan reykingar voru bannaðar með öllu inni á veitinga- og skemmtistöðum. Hafdís Helga Helgadóttir talaði við Þorgrím Þráinsson, fyrrverandi framvkæmdastjóra Tóbaksvarnarnefndar og Kormák Geirharðsson, veitingamann um bannið.