Á þessu ári hefði eitt vinsælasta leikskáld allra tíma, Moliere, orðið 400 ára. Af því tilefni verður blásið til afmælisveislu í þremur þáttum sem hefst á miðvikudag í Veröld, húsi Vigdísar. Þar verður mikið um dýrðir, fyrirlestrar og leiklestrar, en dagskráin á að höfða til allra sem hafa áhuga leikhúsi, þýðingum og bara franskri menningu almennt. Guðrún Kristinsdóttir og Sveinn Einarsson hafa staðið í undirbúningi og þau verða gestir okkar hér rétt á eftir.
Á dögunum kom út ný íslensk þýðing á rúmlega tvö hundruð ára gamalli bók sem skrifuð var á enska tungu og fjallar um líf og ástir hefðarfólks í útsveitum Lundúna. Þegar skáldsaga Jane Austen, Sense and sensibility, kom fyrst út í Bretlandi árið 1811 var þar ekki getið um höfund, heldur stóð þar aðeins ?by a lady? - eða eftir konu, á titilsíðu bókarinnar. Vinsældir ritverka Jane Austen hafa aukist mjög síðustu áratugi og nú er þetta klassíska skáldverk loksins komið út á íslensku, í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Titill sögunnar, Aðgát og örlyndi, vísar í einkennandi og ólíkt lundarfar aðalpersónanna tveggja, systranna Elinor og Marianne. Rithöfundurinn og þýðandinn Silja Aðalsteinsdóttir er gestur okkar í þætti dagsins og segir okkur aðeins frá þýðingunni og skáldskap Jane Austen.
RIFF, árlegri kvikmyndaveislu haustsins lauk í gær. Við hér í Víðsjá fórum á nokkrar myndir en ætlum að segja ykkur frá tveimur þeirra: Corsage í leikstjórn hinnar austurrísku Marie Kreutzer, og Veru, í leikstjórn einnig Tizzu Covi og Rainer Frimmel.
Og svo heyrum við líka ljúfa tóna í þætti dagsins, af nýjustu hljómplötu Víkings Heiðars Ólafssonar.