Leikhópurinn Spindrift er eitt af þeim listakollektívum sem taka þátt í Fringe listahátíðinni í ár. Spindrift flytur tvö verk á hátíðinni, Leikverkið Þeir, sem sýnt verður í Tjarnarbíó, og Leikverkið Við dönsum undir öskufalli endalokanna, sem sýnt verður í Iðnó. Spindrift er skipað sex konum frá Íslandi og Finnlandi sem kynntust í Englandi og Eistlandi. Það er ýmislegt sem tengir þessar sviðslistakonur þó þær komi úr ólíkum áttum, með annars viljinn til að breyta starfsandanum og hefðbundnum valdastrúktúr leikhússins. Þær vinna eftir feminískum gildum og leitast við að ýta undir það sem oft eru kallaðir kvenlegir eiginleikar í sinni sköpun. Tveir meðlimir Spindrift, þær Bergdís Júlía Jóhannsdóttir og Tinna Þorvalds Önnudóttir, verða gestir Víðsjár í dag.
Og við fáum sendingu frá Snorra Rafni Hallssyni, hans þriðja pistil af fimm sem fjalla um peninga. Í dag segir Snorri Rafn frá hinum leyndardómsfulla Satoshi Nakamoto, upprunalegum tilgangi Bitcoin og hvers vegna líking Bitcoin við gull gengur ekki upp. Þegar allt kemur til alls eru peningar kannski bara ekki neitt. Meira um það hér á eftir.
En við byrjum þáttinn á að hefja okkur til flugs. Hvað er svona heillandi við fugla og hvernig birtast þeir okkur í skáldskap? Jóhannes hitti Ragnar Helga Ólafsson, rithöfund og bókaútgefanda, á kaffivagninum til að ræða fugla. Þetta samtal fór fram í júní 2018, en er nokkuð tímalaust og kannski bara viðeigandi, í dag á lengsta degi ársins.
Umsjón: Halla Harðardóttir