Á krefjandi tímum er mikilvægt að halda í vonina, bjartsýnina og trúna á mannkynið, samtalið og umbreytingarmátt listarinnar. Nokkurnvegin svona er inntakið í Goethe morph, menningarviðburði fullum af sýningum og málstofum sem hefjast um helgina og fara fram í Norræna húsinu í samstarfi við Goethe Institut. Arnbjörg María Daníelsen, sýningarstjóri, segir frá fjölbreyttri dagskrá í Norræna húsinu næstu tvær vikurnar.
Í kvöld verður frumflutt í Gamla bíó ný íslensk ópera eftir gömlu ævintýri, Mærþöll. Þórunn Guðmundsdóttir er höfundur bæði tónlistar og libretto, en hún hefur skrifað fjölda leikrita, söngleikja og ópera síðustu ár. Tónverk eftir Þórunni verður líka frumflutt á tónleikum í Langholtskirkju næstkomandi sunnudag, sem Íslenski flautukórinn heldur utan um og haldnir eru í minningu flautuleikarans Hallfríðar Ólafsdóttur, sem lést fyrir réttum tveimur árum, langt fyrir aldur fram. Þórunn kemur í hljóðstofu og segir okkur frá óperunni og tónverkinu Hafblik.
Þegar best tekst til getur hausinn á lesandanum stækkað jafnmikið við að lesa eina örsögu eins og eina skáldsögu. Þessa tilvitnun í Elísabetu Jökulsdóttur er að finna í bók sem kom út í vikunni: Með flugur í höfðinu, sýnisbók íslenskra prósaljóða og örsagna 1922-2012. Safnritið er yfirlit um íslensk prósaljóð og örsögur, eftir tugi skálda sem hafa fengist við þessi heillandi en vandmeðförnu bókmenntaform. Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor í spænsku, og Óskar Árni Óskarsson, skáld, önnuðust útgáfuna og eru gestir dagsins í Víðsjá.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir