Destination Mars heitir einkasýning listakonunnar Söru Riel sem opnaði í Ásmundarsal um helgina. Þar veltir Sara fyrir sér ferðalögum mannsins út fyrir plánetuna jörð, blæti til þess að kanna hið ókannaða og drauma okkar um að fara til Mars. Þar byggir listakonan á geimvísindum og fréttum af geimferðum undanfarin ár. Geimferðir sem sýna okkur jörðina í nýju ljósi en þekja hana smám saman geimrusli, svo hætt er við að við lokumst inni. Destination mars samanstendur af málverkum, teikningum, grafík, ljósmyndum, og veggverkum. Sýningin tekur yfir öll rými Ásmundarsalar, bæði að innan sem utan. Við fljúgum til Mars og heim aftur með Söru Riel hér síðar í þættinum.
Um liðna helgi var frumsýning í Þjóðleikhúsinu á verkinu Ást og upplýsingar eftir eitt virtasta leikskáld breta, Caryll Churchill. Það er Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir og við heyrum hér um miðbik þáttar hvað leikhúsrýni okkar, Evu Halldóru Guðmundsdóttur, fannst um uppfærsluna.
Félag íslenskra myndlistarmanna fagnaði 80 ára afmæli í fyrra og af því tilefni ákvað félagið að láta skrásetja sögu þess. Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur var fengið í verkið og niðurstaðan er bókin Að finna listinni samastað - þættir úr sögu íslenskra myndlistarmanna. Við vorum að fá verkið í hendur, þessa glæsilegu bók sem grafíski hönnuðurinn Hildigunnur Gunnarsdóttir hannaði. Saga FÍM er í senn saga mikilla átaka um hverskyns hugðarefni listamanna og þess samtakamáttar sem átökin leiddu um leið af sér. Við förum yfir sögu félagsins með höfundi bókarinnar í þætti dagsins.
En við hefjum þáttinn á þvi að gefa sviðslistakonunni Sveinbjörgu Þórhallsdóttur orðið. Hún flytur ávarp í tilefni af alþjóðlegum leiklistardegi.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Jóhannes Ólafsson