Víðsjá
Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.
Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.
Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Úlfar Þormóðsson rithöfund sem hefur sent frá sér bókina Fyrir augliti: Dagatal, sem hefur að geyma dagbókarfærslur Úlfars á árunum 2018 og 2019. Farið verður í heimsókn til ungrar listakonu, Ingibjargar Friðriksdóttur, sem er nýflutt heim frá bandaríkjunum eftir framhaldsnám í elektrónískum tónsmíðum og upptökutækni. Hlustendur heyra af verki sem hún samdi fyrir Listahátíð í Reykjavík, verki sem kallast Meira Ástandið, verk sem er bók, en samt ekki bók heldur tónsmíð, hljóðverk, en með því að fletta síðum bókarinnar er jafnvel hægt að komast í sýndarveruleika. Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar í dag um samkomur og listviðburði en margir velta því fyrir sér hvernig framtíðin verður þegar takmarkanir vegna heimsfaraldurs verða liðin tíð. Heyra handabönd sögunni til, munu fjarfundir halda velli og hvað gerist þegar við megum aftur safnast saman í leikhús, fara á tónleika og sækja upplestra? Og bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er skáldsagan Jóhann Kristófer eftir Romain Rolland, sem kom út í tíu bindum á árunum 1904-1912 og í íslenskri þýðingu Þórarins Björnssonar og seinna Sigfúsar Daðasonar, fyrstu þrjú bindin, árið 1947. Bókin er þroskasaga tónlistarsnillingsins Jóhanns Kristófers og sækir Romain Rolland meðal annars innblástur í ævi Beethovens en einnig annarra frægra tónskálda. Í verkinu setur Rolland fram hugmyndir sínar um eðli listarinnar um leið og hann kryfur hin ýmsu þroskastig mannsins og hvað felst í því að vera listsnillingur. Gildi verksins hefur ekki síst verið talið fólgið í lýsingu þess á evrópskri menningu í kringum aldamótin 1900. Rætt verður við Gísla Magnússon prófessor við Mála- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands um verkið og höfundinn í Víðsjá í dag.
Umsjón: Eiríkur Guðmundsson
Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.
Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.