Rússar segjast ætla að hörfa frá Kherson héraði í Úkraínu. Ráðamenn þar taka þeim fyrirætlunum með fyrirvara.
Úrslita er enn beðið í fimm ríkjum í Bandaríkjunum eftir kosningarnar í gær. Rauðu holskeflunni sem Repúblikanar spáðu hefur verið líkt við bleika skvettu.
Auka þarf fjárframlög til geðheilbrigðismála til að stytta biðtíma eftir þjónustu og taka á viðvarandi manneklu. Þingmenn lýstu áhyggjum af stöðu mála á Alþingi í dag.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús segir leiðina í átt að lýðræði markast af þjáningu og tárum. Erfitt sé að vera bjartsýnn þegar vinir manns eigi yfir höfði sér dauðadóm fyrir andóf.
Tæpum eitthundrað þrjátíu og tvö þúsund tonnum af loðnu er úthlutað til íslenskra fiskiskipa á komandi vertíð. Tuttugu og eitt skip er skráð með loðnukvóta.
-----
Rauða bylgjan eða jafnvel holskeflan sem Repúblikanar í Bandaríkjunum spáðu að myndi rísa í kosningunum í gær minnti frekar á bleika skvettu, svo vitnað sé í fyrirsögn á vef Time fréttatímaritsins. Reyndar bendir fátt til annars en að þeir tryggi sér meirihluta í fulltrúadeild þingsins en tvísýnt er um úrslit í öldungadeildinni. Undir kvöld höfðu Demókratar tryggt sér 48 þingsæti og Repúblikanar 47. Búist er við að úrslit í Nevada verði ekki kynnt fyrr en að nokkrum dögum liðnum vegna tímans sem það tekur að telja utankjörfundaratkvæði. Þá stefnir allt í bráðabana í Georgíu milli Raphaels Warnocks, þingmanns Demókrata, og Repúblikanans Herschels Walkers, sem bauð sig fram á móti honum. Þar þarf frambjóðandi að fá 50 prósent atkvæða til að ná kjöri. Bráðabaninn fer að líkindum fram fljótlega eftir mánaðamót. Ásgeir Tómasson tók saman atburði næturinnar og dagsins.
Þingkosningarnar í Bandaríkjunum voru æsispennandi og margt sem kom nokkuð á óvart. Ekki er von á endanlegri niðurstöðu strax, en úrslit í öldungadeildinni eru svo gott sem ráðin, en þó getur ennþá ýmislegt gerst. En ef svo fer sem horfir þá verður sætum í öldunadeildinni skipt jafnt, aftur, og þá myndi Kamala Harris varaforseti hafa oddaatkvæði. Þessar kosningar eru merkilegar fyrir margra hluta sakir.Bjarni Rúnarsson ræddi við Silju Báru Ómarsdóttur prófessor í stjórnmálafræði og Hafstein Einarsson dósent við Stjórnmálafræðifræðideild Háskóla Íslands.
Umsjónarmaður: Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon.
Stjórn fréttaútsendingar: Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir.