Líðan á vinnustað,Póstkort frá Magnúsi og hljómsveitin Umbra
Valdimar Svavarsson ráðgjafi hefur um langt skeið starfað við ráðgjöf og kennslu á félagslega sviðinu og vann í nokkur ár við einstakling- og pararáðgjöf og má segja að samskipti sé hans sérgrein. Á síðustu árum hefur hann haldið námskeið, fyrirlestra og sinnt teymisþjálfun innan fjölmargra fyrirtækja og stofnanna og meðal annars um virðingu á vinnustað, meðvirkni á vinnustað og sjálfsmynd og ábyrgð starfsfólks. Við vorum á vinnustaðanótum með Valdimar.
Í Póstkorti dagsins frá Magnúsi R. Einarssyni segir hann af sjóferðum sínum með Herjólfi sem hefur oftar en ekki þurft að sigla til Þorlákshafnar frekar en til Landeyjahafnar í vetur. Oft hefur verið haugasjór en Magnús líkar það ágætlega enda sjóhraustur. Í þessum ferðum les hann ýmislegt sér til skemmtunar og fróðleiks. Að þessu sinni sagði hann frá ólíkum glæpamönnum sem hann fræddist um síðast þegar hann sigldi með emmess Herjólfi.
Tónlistarhópurinn Umbra hefur um árabil sérhæft sig í flutningi fornrar og nýrrar tónlistar og í þeirri list að vekja forn þjóðlög eða gleymda lagboða til lífsins.Umbra fékk Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2018 fyrir plötuna Sólhvörf og núna eru þær að leggja lokahönd á nýjustu plötu sína;Bjargrúnir en hún mun koma út í maí hjá Dimmu og fer í dreifingu víða um Evrópu. Platan kafar djúpt í þjóðlagaarfinn okkar, og kveðskapur plötunnar kemur frá ýmsum tímum, sá elsti frá 13. öld og sá yngsti frá 19. öld. Yrkisefnin eru æði ólík en öll draga skáldin fram einhvers konar raunir kvenna.