Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Berglind Pétursdóttir, eða Berglind Festival. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir innkomur sínar í þáttunum Vikan með Gísla Marteini á föstudagskvöldum og nú síðasta föstudag, í fyrsta þætti vetrarins, sló hún í gegn þegar hún lýsti íslensku sumarkonunni, með hatt í ponsjói og kampavínsglas í hendi við laxveiðiá. Berglind er menntaður dansari en hefur starfað sem markaðssérfræðingur hjá Símanum, markaðs og samfélagsmiðlasérfræðingur hjá ENNEMM og Íslensku auglýsingastofunni og er nú starfandi hugmynda og textasmiður á auglýsingastofunni HN Markaðssamskipti. Einnig var hún kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík frá 2019-2021 á mjög sérkennilegu tímabili. Það var gaman að tala við Berglindi Festival í þættinum í dag.
Í matarspjalli dagsins tókum við svo upp þráðinn frá því í síðustu viku og héldum áfram að ræða skólanesti frá því er við vorum ung, talsverð nostalgía sem fylgdi því að ræða t.d. smurt brauð, nestisbox og svo framvegis. Svo hófum við nýja umræðu um sælu, ekki sakbitna sælu, heldur hvað okkur þykir best að fá okkur fyrir framan sjónvarpið á kósý kvöldum.
Tónlist í þættinum í dag:
Sólarsamba / GÓSS (Magnús Kjartansson og Halldór Gunnarsson)
Það sýnir sig / Una Torfadóttir og Hjálmar (Sigurður Guðmundsson)
You Turn Me On, I?m a Radio / Joni Mitchell (Joni Mitchell og Liam Wade)