Slysavarnaskólinn, að alast upp við fíknivanda og veðurspjallið
Á fyrsta fræðslufundi vetrarins á vegum Vitafélagsins verður tilurð Slysavarnaskóla sjómanna til umræðu. Höskuldur Einarsson var einn af frumkvöðlunum að stofnun skólans og einn af fyrstu þrem starfsmönnum hans. Í fyrirlestri sem hann flytur á fræðslufundinum mun hann segja frá því hvað varð til þess að farið var að íhuga þessi mál og hvernig öryggisfræðslan var í Slysavarnaskólanum. Slysavarnaskólinn var stofnsettur árið 1985 og Höskuldur var yfirkennari skyndihjálpar og slökkvistarfa um borð í skólaskipinu Sæbjörgu.
Við töluðum í dag við Vagnbjörgu Magnúsdóttur, fíknifræðing, en hún sagði okkur frá rannsóknarritgerð sinni í meistaranámi í Háskólanum á Akureyri. Ritgerðin heitir Vanlíðan mín var birtingarmyndin - Reynsla kvenna af því að alast upp við fíknivanda. Tilgangur rannsóknarinnar var að dýpka skilning og auka þekkingu á áhrifum og afleiðingum þess að alast upp við fíknivanda foreldra. Vagnbjörg sagði okkur betur frá rannsókninni í þættinum.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur verður með okkur í veðurspjallinu annan hvern þriðjudag í vetur eftir að Elín Björk Jónasdóttir er horfin til annara starfa. Í fyrsta veðurspjalli Einars í Mannlega þættinum sagði hann okkur frá óvenju heitum september víða um heim, hlýjum sjávarstraumum svo fór hann yfir sumarveðrið hér á Íslandi og veðrið framundan.
Tónlist í þættinum
Got to get you in to my life / Earth Wind and fire (Lennon og Mcartney)
Bíldudals grænar baunir / Jolli og Kóla (Valgeir Guðjónsson)
Það styttir alltaf upp / Ragnar Bjarnason (Jón Jónsson) Ljósvíkingur / Egill Ólafsson (Gunnar Þórðarson og Ólafur Haukur Símonarson)