Á málþingi sem haldið er í tilefni alþjóðadags krabbameinsrannsókna, kl.16:30 í dag í húsi Krabbameinsfélagsins, verður veitt innsýn í mikilvægi krabbameinsrannsókna, þar sem vísindafólk og læknar og fólk sem nýtur ávinnings af framförum í meðferð sinna krabbameina tala á mannamáli um sína reynslu. Í dag fengum við í heimsókn til okkar Valgerði Jakobínu Hjaltalín, sem hefur unnið að fjölmörgum rannsóknum tengdum myndun og meinvörpun æxla þar sem notast er við ávaxtaflugur og við heyrðum einnig í Sigurbirni Árna Arngrímssyni, sem greindist með fjórða stigs sortuæxli fyrir rúmum tveimur árum.
Í dag er alþjóðlegur Alzheimerdagur og í tilefni þess halda Alzheimersamtökin ráðstefnu undir heitinu Er mamma bara með heilabilun þrisvar sinnum í viku? - Úrræði og þjónusta fyrir fólk með heilabilun á landsvísu. Meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni eru systurnar Dagný Björg Gunnarsdóttir og Hera Kristín Óðinsdóttir sem ætla að segja frá upplifun sinni af því þegar móðir þeirra fékk staðfesta greiningu fyrir Alzheimer og tímanum eftir greiningu. Einnig mun Bergþóra Guðmundsdóttir segja frá reynslu sinni á ráðstefnunni, en hún er líka aðstandandi Alzheimersjúklings. Við ræddum við þær Dagnýju, Heru og Bergþóru í þættinum í dag.
Samtökin Landsbyggðin lifi er hreyfing fólks sem vill örva og efla byggð um land allt, bæði í efnahags- og menningarmálum. Samtökin taka þátt í erlendum verkefnum með öðrum jaðarbyggðum, til dæmis í Evrópusambandinu, þar sem þau meðal annars deila reynslu sinni af því að vinna gegn fólksfækkun og glötun menningar í heimabyggð. Framundan er aðalfundur félagsins og málþing á Egilsstöðum og við fengum þær Hildi Þórðardóttur og Sigríði Svavarsdóttur til að segja okkur meira frá samtökunum, aðalfundinum og hvað er á döfinni hjá þeim.
Tónlist í þættinum
Brúnaljósin brúnu / Páll Óskar Hjálmtýsson ( Jenni Jóns)
I?m still standing / Elton John (Elton John & Bernie Taupin)
Falling Slowly / The Swell Season (Glen Hansard & Markéta Irglová)
Aftur heim til þín / Eyþór Ingi og Lay Low (Baldur Hjörleifsson og Jónína Guðrún Eysteinsdóttir)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GÍGJA HÓLMGEIRSDÓTTIR