Súrkálið taka tvö, lesið í skýin og póstkort frá Spáni
Við lentum í tæknilegum örðugleikum í viðtali okkar við Dagnýju Hermannsdóttur í þættinum í gær, þar sem hún var að fræða okkur um leyndardóma súrkálsins. Því þurftum við að hætta í miðju kafi og lofuðum því að það kæmi í þættinum í dag án truflana og auðvitað stóðum við við það. Dagný fræddi okkur um sögu og hollustu súrkálsins og svaraði þeirri spurningu hvort það sé allra meina bót.
Í upphafi nýs árs þá er algengt að staldra við og rýna í stöðuna, fortíðina og það sem framundan er. Stundum er talað um að eitthvað sé skrifað í skýin og í dag ætlum við að lesa í skýin með Erni Óskarssyni, en hann stýrir námskeiði hjá Endurmenntun HÍ sem heitir einmitt það, Lesið í skýin. Hvernig myndast ský? Flokkun skýja. Helstu skýjagerðir á Íslandi og fleira. Örn sagði okkur meira frá skýjum og rýndi með okkur í skýin í þættinum í dag.
Við fengum fyrsta póstkort ársins frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Í póstkorti dagsins segir frá jóla og áramótahátíðinni á Spáni, sem var með gerólíkum hætti en venjan er. Það verður líka sagt frá stóra matarmarkaðnum í Alicante sem er undraveröld fyrir þá sem hafa ánægju af mat og matargerð. Þrettándinn er meiriháttar hátíð á Spáni því þá afhenda vitringarnir þrír jólagjafirnar til spænskra barn. Venjulega er mikið fjör og líf í kringum þrettándann, skrúðgöngur, hávær tónlist og fólk fer í búninga og dansar í götum og torgum. En ekki núna í ár. Í lokin segir svo frá kólnandi tíð við Costa Blanca.