• 00:10:09Ljósmyndarar Álfkonur
  • 00:25:50Kaffimyndir frá Akranesi
  • 00:38:02Andrea Róbertsdóttir lesandinn

Mannlegi þátturinn

Ljósmyndakonur, kaffibollamyndir og Andrea lesandi vikunnar

Áhugaljósmyndarafélag fyrir konur af Eyjafjarðarsvæðinu, öðru nafni ÁLFkonur, er félagskapur kvenna sem hafa sameiginlegt áhugamál, að festa allt milli himins og jarðar á „filmu“. Hópurinn hefur starfað saman frá 2010. Síðasta föstudag var opnuð sýning utandyra við Drottningabraut á Akureyri, en sú sýning er afrakstur samstarfs við áhugaljósmyndara í Portobello við Edinborg í Skotlandi. Þessir hópar fóru í parasamstarf og unnu með mismunandi þemu, þar sem sumir lögðu áherslu á landslag og staðsetningu þessara tveggja strandsamfélaga en aðrir skoðuðu persónulegri hliðar mannlífsins á báðum stöðum. Gunnlaug Friðriksdóttir og Guðný Pálína Sæmundsdóttir voru í hljóðveri RÚV fyrir norðan og sögðu okkur frá þessu samstarfi. Myndirnar verður hægt að sjá á vefsíðunni twoplacesbythesea.weebly.com eftir næstu helgi.

Helga Ólöf Oliversdóttir, sjúkraliði á Akranesi, sá það í byrjun COVID19-faraldursins í vor að veiran myndi hafa afgerandi áhrif á samskipti og daglegar venjur fólks. Í stað þess að hitta vini sína daglega þá yrði minna úr slíkum mannlegum samskiptum. Sjálf ákvað hún að fara í sjálfskipaða sóttkví. Því hefur hún farið á hverjum morgni síðan í gönguferð, ein síns liðs, jafnvel klukkan fimm að morgni, þar sem hún tekur með sér kaffibolla og kaffi og stillir bollanum upp í náttúrunni og tekur mynd. Myndunum, sem eru orðnar 150 talsins, deilir hún með vinum og vandamönnum á Facebook til að láta vita af sér ef svo má segja. Myndirnar eru vægast sagt stórskemmtilegar og við hringdum í Helgu í þættinum og fengum hana til að segja okkur frá þessum gjörningi.

Lesandi vikunnar í þetta sinn var Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA Félags kvenna í atvinnulífinu. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.

Umsjón: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Birt

31. ágúst 2020

Aðgengilegt til

31. ágúst 2021
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir