Ljósmyndakonur, kaffibollamyndir og Andrea lesandi vikunnar
Áhugaljósmyndarafélag fyrir konur af Eyjafjarðarsvæðinu, öðru nafni ÁLFkonur, er félagskapur kvenna sem hafa sameiginlegt áhugamál, að festa allt milli himins og jarðar á „filmu“. Hópurinn hefur starfað saman frá 2010. Síðasta föstudag var opnuð sýning utandyra við Drottningabraut á Akureyri, en sú sýning er afrakstur samstarfs við áhugaljósmyndara í Portobello við Edinborg í Skotlandi. Þessir hópar fóru í parasamstarf og unnu með mismunandi þemu, þar sem sumir lögðu áherslu á landslag og staðsetningu þessara tveggja strandsamfélaga en aðrir skoðuðu persónulegri hliðar mannlífsins á báðum stöðum. Gunnlaug Friðriksdóttir og Guðný Pálína Sæmundsdóttir voru í hljóðveri RÚV fyrir norðan og sögðu okkur frá þessu samstarfi. Myndirnar verður hægt að sjá á vefsíðunni twoplacesbythesea.weebly.com eftir næstu helgi.
Helga Ólöf Oliversdóttir, sjúkraliði á Akranesi, sá það í byrjun COVID19-faraldursins í vor að veiran myndi hafa afgerandi áhrif á samskipti og daglegar venjur fólks. Í stað þess að hitta vini sína daglega þá yrði minna úr slíkum mannlegum samskiptum. Sjálf ákvað hún að fara í sjálfskipaða sóttkví. Því hefur hún farið á hverjum morgni síðan í gönguferð, ein síns liðs, jafnvel klukkan fimm að morgni, þar sem hún tekur með sér kaffibolla og kaffi og stillir bollanum upp í náttúrunni og tekur mynd. Myndunum, sem eru orðnar 150 talsins, deilir hún með vinum og vandamönnum á Facebook til að láta vita af sér ef svo má segja. Myndirnar eru vægast sagt stórskemmtilegar og við hringdum í Helgu í þættinum og fengum hana til að segja okkur frá þessum gjörningi.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA Félags kvenna í atvinnulífinu. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.