Sjálfbærni, gönguleiðir Reykjaness og Inga Björk og lýran
Nú á tímum hlýnandi loftslags hefur eitt hugtak hljómað oftar en áður, það er sjálfbærni. Sjálfbærnihugtakið hefur þróast með tímanum, það snýst ekki eingöngu um umhverfis- og auðlindanýtingu heldur líka um heilsteyptara samhengi með hliðsjón af ábyrgð, hlutverki og samkeppni fyrirtækja og stofnana til framtíðar. Við fengum Sigurð H. Markússon, viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun, sem er einn leiðbeinanda á nýju námskeiði hjá Opna háskólanum til að segja okkur frá þessari þróun og hvernig hægt er að gefa sjálfbærni aukið vægi.
Framundan eru blíðviðrisdagar í höfuðborginni og víða um land og fyrir þá sem vilja vera á suðvesturhorninu og fara í gönguferðir er Reykjanesið tilvalið til útivistar. Fyrir nokkrum árum sögðu menn að Reykjanesið væri falin perla en nú er það orðið vinsæll útivistarstaður og heilmikið hægt að sjá og upplifa. Jónatan Garðarsson er sennilega sá sem þekkir göngusvæði Reykjaness hvað best og hann fræddi okkur um gönguleiðir á Reykjanesinu í þættinum.
Inga Björk Ingadóttir er músíkmeðferðarfræðingur og starfar sem slíkur í Hljómu, sem er hennar eigin meðferðarstöð, staðsett í Hafnarfirði. Hún hefur gefið út frumsamda tónlist þar sem hún leikur á lýru en hún notar lýru mikið í músíkmeðferðinni og nú í haust er væntanleg ný barnaplata. Við ræddum við Ingu um lýruna, nýja barnaplötu og músíkmeðferðina í dag.