Alþjóðaforseti Lions fyrst kvenna í heiminum

Guðrún Björt Yngvadóttir hefur verið í Lions-hreyfingunni í 25 ár. Hún býr í Garðabæ og starfaði lengi á rannsóknarstofu sem lífeindafræðingur en síðan hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún vill helst ekki gefa upp hvað hún er gömul. Segist hafa orðið 39 ára og tekið ákvörðun um að halda ekki upp á fleiri afmæli, þótt síðan séu liðin mörg ár. Á síðustu árum fór hún að vera virkari í alþjóðastarfi Lions-hreyfingarinnar og nú hefur það aldeilis undið upp á sig. Hún gegnir orðið æðsta embætti hreyfingarinnar. Þar með er hún í forsvari fyrir 1,4 milljóna manna samtök í yfir 200 löndum.