Um Kveik

Kveikur er fréttaskýringaþáttur þar sem áhersla er lögð á rannsóknarblaðamennsku og almennar fréttaskýringar. Þátturinn hóf göngu sína haustið 2017 og hefur síðan hlotið sex Edduverðlaun sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins og sem besta sjónvarpsefnið. Dómnefnd Blaðamannafélags Íslands valdi umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um Samherjaskjölin rannsóknarblaðamennsku ársins 2019.

Hlutverk Kveiks er að upplýsa og fræða almenning um mikilvæg, samfélagsleg málefni og að afhjúpa misferli og misbeitingu valds. Efnistök Kveiks eru fjölbreytt og hafa annars vegar snertiflöt við flest svið íslensks samfélags og hins vegar eru þar unnar vandaðar fréttaskýringar af erlendum vettvangi. Ritstjórnin vinnur sjálfstætt og lætur hagsmunaaðila ekki hafa áhrif á störf sín eða efnistök.

Kveikur leggur mikla áherslu á ábyrga meðferð trúnaðargagna og vernd heimildarmanna. Ritstjórnin er öll meðvituð um mikilvægi þess að gæta fyllsta trúnaðar um allt það sem starfsmenn verða áskynja í starfi sínu og leynd þarf að ríkja um. Þannig er vernd heimildarmanna tryggð.

Hægt er að nálgast alla fyrri þætti Kveiks hér á vefnum.

Ritstjórnin er skipuð reynslumiklum frétta- og dagskrárgerðarmönnum. Ritstjóri er Ingólfur Bjarni Sigfússon.

Sjöunda þáttaröð Kveiks hófst haustið 2023. Við fögnum öllum ábendingum frá áhorfendum um mögulegt umfjöllunarefni. Hér eru upplýsingar um starfsfólk Kveiks og hvernig er hægt að hafa samband.