Við fjölluðum um blóðfitu, eða kólesteról, í þættinum í dag og til okkar kom hjartalæknirinn Hilma Hólm. Há blóðfita er áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og þeir eru algengasta dánarorsök Íslendinga. Þessir sjúkdómar gera miklar kröfur til heilbrigðiskerfisins enda er meðferð oft flókin og kostnaðarsöm. Í þessu samhengi er oft talað um „vonda kólesterólið“ (LDL) og „góða kólesterólið“ (HDL). Að hluta til er há blóðfita arfgeng, því geta tveir einstaklingar sem lifa á nákvæmlega sama mataræði og hreyfa sig jafnmikið haft gjörólíkar blóðfitur. Mikið hefur verið fjallað um mataræði og blóðfitur á undanförnum árum og hvað er rétt og hvað er rangt. Sumir segja að blóðfitulækkandi lyf séu ofnotuð á meðan aðrir segja að þetta séu lífsnauðsynleg lyf. Hilma fór með okkur yfir þetta í dag.
Út eru komin hreyfispjöld til heilsueflingar. Þetta eru 50 einfaldar og fjölbreyttar styrktar- og liðleikaæfingar sem auka kraft, þol og jafnvægi. Hverri æfingu fylgja myndir og skýrar leiðbeiningar. Æfingarnar eru framkvæmdar án áhalda og þær er hægt að gera hvar sem er og henta fólki á öllum aldri. Höfundarnir eru Anna Björg Björnsdóttir og Gerður Jónsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingar og afrekskonur í íþróttum, þær komu í þáttinn í dag.
Og lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor á menningarsviði hjá Árnastofnun. Hún sagði okkur frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Margrét talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Fóstur e. Claire Keegan, þýðandi: Helga Soffía Einarsdóttir.
Með minnið á heilanum e. Þórhildi Ólafsdóttur
Jeg vil: en forfatters portræt af Sigrid Undset (1882–1949) e. Idu Jessen
Hamingjudagar heima í Noregi e. Sigrid Undset, þýðing úr ensku á íslensku Brynjólfur Sveinsson
Allt sem við hefðum getað orðið e. Sif Sigmarsdóttur
Tónlist í þættinum í dag:
Meira, meira / Ríó tríó (Gunnar Þórðarson, texti Jónas Friðrik Guðnason)
Crossroads / Helgi Jónsson & Emilíana Torrini (Emilíana Torrini, Helgi Jónsson og Philipp Steinke)
High Sierra / Linda Ronstadt (L.Harley Allen)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON