ASÍ, BSRB, BHM og Neytendasamtökin standa fyrir morgunverðarfundi um nýútkomna skýrslu um gjaldtöku og arðsemi bankanna á morgun. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, verða gestir okkar í upphafi þáttar þar sem við ræðum niðurstöður skýrslunnar og stöðu neytenda á íslenskum fjármálamarkaði.
Fyrirspurnir um trjónupeðla, sveppi sem innihalda sílósíbín, hafa hér um bil yfirtekið vinsæla facebook hópinn Funga íslands. Fyrirspurnir um sveppinn eru orðnar yfir fimmtíu á örfáum dögum. Við spyrjum hvort ástæðan sé sú mikla athygli og umfjöllun sem sveppurinn hefur fengið að undanförnu eða hvort eitthvað annað liggi að baki. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir -Sveppafræðingur og stofnandi Facebook hópsins Funga Íslands ætlar að spjalla við okkur um málið.
Nokkuð hefur verið fjallað um mál tengd Ernu Solberg, formanni Hægriflokksins í Noregi, undanfarið, en hún ætlar ekki að hætta sem formaður þrátt fyrir umfangsmikil hlutabréfaviðskipti eiginmanns hennar á meðan hún var forsætisráðherra sem bent hafa til þess að hann hafi vitað ýmislegt sem önnur vissu ekki. Hún hefur sagt hægt að axla ábyrgð án þess að segja af sér. Við ætlum að ræða þessi mál, verðbréfabrask og viðskiptasiðfræði við Henry Alexander Henryson, siðfræðing.
Við kynnum okkur erfðafræðilegu hliðina á laxeldismálunum. Í íslenskum ám fer fram fiskirækt til að auka fiskgengd í ám. Það er mjög mikilvægt að eldislax rati ekki í fiskræktina því þannig gæti erfðablöndun aukist til muna á skömmum tíma. Sérfræðingar hjá Matís hafa verið á kafi í þessum málum síðustu daga enda þarf að hraðar hendur því strokulaxar úr sjókvíaeldi virðast orðnir útbreiddir í íslenskum ám. Sæmundur Sveinsson sem stýrir erfðagreiningunum hjá Matís setur okkur betur inn í málið.
Sigrún Steinarsdóttir, sem haldið hefur utan um Facebook-hópinn Matargjafir á Akureyri og nágrenni í átta ár, vakti nokkra athygli í þættinum Hvunndagshetjum í gærkvöldi. Þar getur fólk beðið um hjálp og Sigrún er milliliður í því að koma matvælum og öðrum nauðsynjavörum til þeirra sem eftir því óska. Í þættinum greindi hún frá því að um það bil 240 beiðnir berist á mánuði og að mörg skammist sín fyrir að þurfa aðstoð og komi jafnvel í skjóli nætur til að afhjúpa ekki neyð sína. Við ætlum að ræða fátækt á Íslandi og þá skömm sem oft fylgir við Kolbein Hólmar Stefánsson, dósent við Háskóla Íslands, sem töluvert hefur rannsakað þau mál.
Loks förum við yfir íþróttir helgarinnar í lok þáttar.