Íslendingar eru komnir í neyslugírinn nú í aðdraganda jólanna, afsláttardagar og auglýsingar dynja á okkur, allt miðar að því að kaupa og missa ekki af æðislegum hlutum á stórkostlegum afslætti. Þorbjörg Sandra Brakke er ein þeirra sem kemur að verkefninu Saman gegn sóun, sem tilheyrir Umhverfisstofnun, og þau vilja reyna að mynda ákveðið mótvægi gegn þessu með fræðslu og ábendingum um hvernig má gera jólin umhverfisvænni með breyttum áherslum þegar kemur að gjöfum og innkaupum.
Við höldum svo áfram í svipuðum takti og ræðum við stofnendur Spjara fataleigunnar, sem vilja breyta því hvernig við notum og kaupum föt, vilja leggja áherslur á endurnýtingu, fataleigur og nýja hönnun. Kristín Edda Óskarsdóttir og Sigríður Guðjónsdóttir koma í heimsókn.
VIð fáum svo fyrsta innslagið af nokkrum sem fjalla um samfélagsmiðla áhrif þeirra á fólk og samfélag, rannsóknir á þeim og fleira. Þorgeir Ólafsson sér um þessa örþætti sem verða á dagskrá í Samfélaginu næstu vikurnar og í dag ræðir hann við Jón Gunnar Ólafsson nýdoktor við Háskóla Íslands um upplýsingaóreiðu, falsfréttir og upplýsingastríð. Þeir ræða meðal annars hvað átt er við með þessum hugtökum, mismunandi aðferðum við að dreifa röngum upplýsingum og aðferðum við að sía þær út.
Málfarsmínútan er á sínum stað og svo fáum við heimsókn frá safni RÚV - að þessu sinni heyrum við viðtal frá miðri síðustu öld við Katrínu Thoroddsen lækni.