Elfar Logi Hannesson leikari hefur starfað lengi sem sviðlistamaður, sett upp hverja leiksýninguna á fætur annarri, í flestum þeirra hefur hann staðið einn á sviðinu og svo stofnsetti hann Act Alone, sviðslistahátíðina sem hefur í heiðri sýningar þar sem einmitt ein manneskja stendur á sviðinu og flytur list sína. Hátíðin hefur verið haldin 16 sinnum við góðan orðstí, en hátíðinni í ár hefur verið frestað vegna COVID-19. Hann er kominn til Reykjavíkur þar sem hann mun flytja nýjan einleik, Beðið eftir Beckett, í Tjarnarbíói. Elfar kom í þáttinn og sagðifrá því hvernig það hefur verið að vera sjálfstæður listamaður á landsbyggðinni á þessum skrýtnu tímum.
Við heimsóttum Salt eldhús, sem staðsett er á efstu hæð í Þórunnartúni, en þar fara fram vinsæl matreiðslunámskeið og við komumst að því að brauðnámskeið eru mjög vinsæl og það getur verið einfalt að baka brauð á hverjum einasta morgni, ólíkt því sem margir halda. Sigríður Björk Bragadóttir sat fyrir svörum.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Hulda Ragnheiður Árnadóttir, formaður FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu og framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
Umsjón: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON