Skilorðsbinding 5 ára dóms vekur furðu, úttekt á vöggustofum í Reykjavík 1974-1979
Dósent í refsirétti furðar sig á að fimm ára fangelsisdómur manns fyrir alvarlegt ofbeldi gegn sambýliskonu sinni hafi verið alfarið skilorðsbundinn. Maðurinn er nú ákærður fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn barnungri stjúpdóttur sinni.
Nefnd um starfsemi vöggustofu Thorvaldsensfélagsins í Reykjavík vill að stjórnvöld taki ákvörðun um sanngirnisbætur til barna sem voru vistuð þar 1974-79. Nefndin telur ekki hægt að slá því föstu að börnin hafi sætt illri meðferð í skilningi laga.
Rúmlega 3.400 hafa verið drepnir í mótmælunum í Íran. Æ fleiri ríki beina því til borgara sinna að yfirgefa landið.
Flestöll íslensk uppsjávarskip eru farin til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu og verða á kolmunna fram að loðnuvertíð í febrúar.
EM í handbolta karla hófst síðdegis, stuðningsmenn stefna til Kristianstad í Svíþjóð þar sem íslenska liðið keppir.