Vinnslustöðin segir upp fólki og aðalmeðferð lokið
Fimmtíu hefur verið sagt upp hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið segir það nauðsynlegt vegna hækkunar veiðigjalda. Atvinnuvegaráðherra bendir á að hækkunin taki ekki gildi fyrr en á næsta ári.
Saksóknari fór í dag fram á að tveir af fimm sakborningum í Þorlákshafnarmálinu fengju meira en sextán ára fangelsi og að sá þriðji ætti að fá sextán ára dóm. Verjendur tveggja sakborninga kröfðust sýknu yfir skjólstæðingum sínum.
Ísraelsher hefur lýst því yfir að Gaza-borg sé hættulegur vígvöllur. Með þessu hefur hann bundið enda á reglubundið hlé á árásum til að koma þangað hjálpargögnum.
Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar segir tíma til kominn að knýja fram umbætur á húsum sem eru í niðurníðslu í borginni.
Nýir fagstjórar hafa verið ráðnir til Kvikmyndaskóla Íslands og skólinn hefur fengið framtíðarhúsnæði í kvikmyndaveri Stúdíó Sýrlands
Málverk sem nasistar stálu fyrir rúmlega 80 árum er komið í leitirnar. Það sást í fasteignaauglýsingu á netinu.