Mál Samskipa, hringvegur lokaður, áfengisneysla og heilabilun, raforkuverð og andlát Steindórs Andersen
Það er ekki í lagi að rannsókn á stóru samkeppnislagabroti fyrnist hjá embætti héraðssaksóknara af því að ekki var til mannafli til að sinna rannsókninni. Þetta segir dómsmálaráðherra sem ætlar að funda með bæði héraðssaksóknara og forstjóra samkeppniseftirlitsins um málið.
Hringvegurinn er lokaður um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og alla leið í Egilsstaði. Fjórar björgunarsveitir á Norðausturlandi voru kallaðar út síðdegis vegna tuga bíla sem sitja fastir á milli Mývatns og Egilsstaða.
Síhækkandi raforkuverð veldur grænmetisbændum erfiðleikum og margir gætu þurft að bregða búi að óbreyttu segir garðyrkjubóndi í Þingeyjasýslu.
Tengsl eru á milli áfengisneyslu og heilabilunar og neysla á áfengi getur ýtt undir aðra áhættuþætti eins og þunglyndi og félagslega einangrun. Áfengisneysla meðal eldra fólks hefur aukist og öldrunarlæknir segir nauðsynlegt að vekja fólk til umhugsunar um áhrif áfengis.
Steindór Andersen kvæðamaður er látinn, sjötugur að aldri. Hann þótti með bestu kvæðamönnum og opnaði heim rímna og kvæðasöngs fyrir yngri kynslóðum.
Umsjón: Ásta Hlín Magnúsdóttir og Ævar Örn Jósepsson