Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem varað var við mikilli hálku í umdæminu. Vegagerðin sagði að aðstæður væru sérstaklega varhugaverðar við Lón að Kelduhverfi og að Kópaskeri. Það rigndi sumsstaðar á frosna vegi og var fólk beðið að sýna ýtrustu aðgát. Vegagerðin sendi fólk út að hálkuverja og þeirra á meðal var Kjartan Stefánsson. Hannlagði af stað fyrr í dag frá Húsavík austur á Kópasker. Hann var í Kelduhverfi að sanda og salta þegar Síðdegisútvarpið náði tali af honum.
Forðið ykkur í tæka tíð, HÖRMUNGAR ERU Í NÁND!!! Hörmungadagar á Hólmavík hefjast í næstu viku þar sem frítt er á alla viðburði og dagskráin uppfull af hörmulegum viðburðum. Fullorðinn maður les leiðinleg ljóð, sorgarsögur frá 19. öld rifjaðar upp og boðið verður upp á afar ömulegt pöbbarölt milli tveggja ölhúsa sem eru hlið við hlið. Einn af skipuleggjendum og upphafsmönnum hörmungahátíðarinnar heitir Andri Freyr og við slógum á þráðinn til hans norður á Strandir.
Í morgun var haldið málþing þar sem saman kom hópur fólks til að tala um íþróttaiðkun fatlaðra barna. Þar var meðal annars spurt hvernig hægt sé að tryggja öllum börnum raunverulegan aðgang að íþróttum og því velt upp hvað hafi áunnist og hvert eigi að stefna næst. Á málþinginu greindi móðir frá reynslu sinni af því að eiga fatlað barn í íþróttum og þjálfari hjá íþróttafélaginu Ösp fór yfir það helsta sem hindrar börn og ungmenni í að stunda skipulagt íþróttastarf. Við tölum við móðurina sem heitir Kristín Margrét Ingibjargardóttir og þjálfarann , hana Hönnu Rún Ragnarsdóttur.
Hópur Íslendinga ætlar að hittast á bar í Brooklyn í New York og horfa saman á leik Íslands og Danmerkur í undanúrslitum EM í handbolta karla. Einn þeirra er Þorgeir Logason og hann talaði við Síðdegisútvarpið.
Sambíóin tilkynntu um lokakaflann í bíóhúsinu við Álfabakka í Breiðholti nú í janúar og hafa verið iðin við kolann að sýna sígild meistaraverk hvíta tjaldsins síðustu daga í einstakri kveðjudagskrá til að heiðra sögu hússins. Meðal kvikmynda sem hafa verið sýndar síðustu kvöld eru Beint á ská, Tveir á toppnum og Sá stóri … við erum þá að tala um The Naked Gun, Lethal Weapon og Big, og einnig mátti sjá WALL-E, Forrest Gump svo eitthvað sé nefnt. Bíóið mun því hætta starfsemi sinni á næstu dögum og mun símafyrirtækið Nova flytja í þessi húsakynni. Okkar góði kvikmyndarýnandi og sjónvarpsframleiðandi, Ragnar Eyþórsson fór í bíó í gær og við spjölluðum við hann í seinni hluta þáttar.
Guðmundur Guðmundsson þekkir öll þjóðin sem einn reyndasta handknattleiksþjálfara landsins og í gegnum tíðina hefur hann einmitt verið aufúsugestur á skjá okkar landsmanna í janúarmánuði í fjölmörg ár. Guðmundur hefur í þrígang sinnt starfi þjálfara karla landsliðsins og vann íslenska liðið silfur á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og brons á EM í Austurríki tveimur árum síðar undir hans stjórn. Ekki nóg með þennan glæsta árangur heldur gerði Guðmundur danska landsliðið að ólympíumeistara í Ríó árið 2016. Guðmundur var á línunni í lok þáttar.