Síðdegisútvarpinu stýrðu þennan mánudaginn þau Margrét Marteinsdóttir og Kristján Freyr.
Síðdegisútvarpið á Rás 2 fór í loftið nokkrum mínútum eftir að ljóst var að íslenska karlalandsliðið í handbolta væri komið í undanúrslit EM. Fyrsta mál á dagskrá í þætti dagsins var að fá viðbrögð Jóns Halldórssonar, formanns HSÍ. Hann var í þann mund að fara að hitta íslenska liðið í búningsklefanum þegar hann ræddi við Síðdegisútvarpið.
Í gær fengu hlustendur Síðdegisútvarpsins beint í æð stemninguna af áhorfendapöllunum í leik Íslands og Svíþjóðar. Það var Anna Svava Knútsdóttir, leikkona sem var þá á línunni en eftir leik dagsins hringdum við í Halldór Halldórsson eða Dóri DNA, eins hann er oftast kallaður því hann var á leiknum.
Fyrir rétt tæpu ári tók Akureyrarbær í notkun rafrænan búnað sem telur fjölda bíla á nagladekkjum. Þá var rætt við Guðríði Friðriksdóttur, sviðsstjóra umhverfis og mannvirkjasviðs sem sagði að nagladekkjanotkun í bænum færi vaxandi og að því yrði að linna. Við hringdum norður í Guðríði og spurðum hana hvernig staðan sé núna samkvæmt nagladekkjateljaranum.
Trump Bandaríkjaforseti hefur að undanförnu, ítrekað hótað því að ráðast á Íran. Fjölmenn mótmæli hafa verið í Íran frá því í lok desember og hefur klerkastjórnin ráðist á fólk og fjöldi mótmælenda verið drepnir. Óvíst er hve margt fólk hefur dáið en talið að það séu að minnsta kosti sjö þúsund en samkvæmt sumum heimildum er tala látinna komin upp í 30 þúsund.
Fyrir tíu dögum var sagt frá því að bandarískt flugmóðurskip og nokkur fylgiskip væru á leið frá Suður-Kínahafi í átt að Mið-Austurlöndum. Nú er flotinn kominn á hafsvæðið suður af Mið-Austurlöndum en auk skipanna eru orrustuþotur, fjarstýrðar eldflaugar og orrustukafbátur. Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur hefur verið að fylgjast með vaxandi spennu á svæðinu og hann fór yfir stöðuna í Síðdegisútvarpinu.
Við rákumst á skemmtilega atvinnuauglýsingu þar sem yfirskriftin er, Gróðurhúsatýpa sem elskar tómata. Auglýsingin er frá Gróðrastöðinni Sunnu á Sólheimum sem er að óska eftir að ráða duglegan starfskraft í tómatahúsið. Þar segir að vinnan geti verið líkamlega erfið en sé skemmtileg. Við slógum á þráðinn til Sólheima í Grímsnesi og ræddum við Valgeir Fridolf Backman, sem er í félagsmálunum á Sólheimum en hann segist reglulega rekast á gróðurhúsatýpu.
Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar hefst á morgun, fimmtudag en hún er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands, sem vettvangur fyrir íslensk tónskáld til að fá verk sín flutt. Í dag er áhersla hátíðarinnar að flytja og kynna samtímatónlist með áherslu á nýja, íslenska tónlist og flytjendur í bland við erlend verk og erlenda flytjendur. Tónskáldið Páll Ragnar Pálsson er í stjórn hátíðarinnar og hann kom í Síðdegisútvarpið og sagði frá þessari mikilvægu tónlistarhátíð.