Spennan í samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna stigmagnast. Trump, forseti Bandaríkjanna segir veröldina ekki örugga nema með algjörum yfirráðum Bandaríkjanna yfir Grænlandi. Þá eru Evrópuríki að undirbúa mótaðgerðir gegn tollayfirlýsingum Trumps en þýski fjármálaráðherrann líkti tollunum við fjárkúgun. Í dag var fundað í höfuðstöðvum NATÓ í Brussel vegna þessara mála. Varnarmálaráðherra Danmerkur og utanríkisráðherra Grænlands ræddu við framkvæmdastjóra NATÓ og varnarmálaráðherrar allra Norðurlandanna hittu framkvæmdastjóra NATÓ. Síðdegisútvarpið sló á þráðinn til Björns Malmquist fréttamanns RÚV sem var nýkominn úr strætó við höfuðstöðvar NATÓ þar sem hann freistaði þess að ná tali af ráðafólki sem sat fundina í dag.
Afríkukeppni landsliða í knattspyrnu lauk í gær með úrslitaviðureign Marokkó-manna og Senegala og má segja að endapunkturinn hafi verið frekar skrautlegur þar sem annað liðið hótaði því að ganga af velli og klára ekki leikinn sem eins konar mótmæli gegn óhæfri dómgæslu. Mótið sem fór fram í Marokkó hefur þó farið vel fram og helstu stjörnur Afríkuþjóðanna farið hamförum en þó hefur gengið á ýmsu. Eldar Ástþórsson markaðsstjóri Faxaflóahafna er mikill ástríðumaður þegar kemur að knattspyrnu álfunnar og hann sagði hlustendum Síðdegisútvarpsins frá mótinu.
Í morgun hófust Læknadagar í Hörpu og er þétt dagskrá þar alla vikuna. Í dag var þemað áfengisneysla og afleiðingar hennar. Farið var yfir það sem kallast hin falda sjúkdómsbyrði vegna áfengisneyslu, spurt hvort amma og afi eigi að hætta að drekka og spurt var hvort áfengi sé að trenda. Þetta er bara brot af því sem fjallað var um á Læknadögum í dag en á meðal þeirra sem héldu fyrirlestur í Hörpu voru Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði sem talaði um normalíseringu áfengis í nútímasamfélagi og Sigurdís Haraldsdóttir, krabbameinslæknir á landspítalanum og prófessor við Háskóla Íslands en yfirskrift hennar erindis var: Áfengi og krabbamein – frá vísindum til vitundar. Sigurdís og Viðar komu í Síðdegisútvarpið.
Við ræddum einnig um afdrif barna sem voru á vistheimilum en ekki hefur verið skoðað sérstaklega hvernig þeim hefur farnast. Urður Njarðvík, prófessor í barnasálfræði sem var í nefnd sem rannsakaði vöggustofur Thorvaldsensfélagsins sagði að slík athugun þyrfti að fara fram en afdrif barna sem voru á vöggustofum voru könnuð. Kom í ljós að dánartíðni þeirra er umtalsverð hærri en jafnaldra. Þá eru þau líklegri en jafnaldrarnir til að glíma við alvarleg veikindi, aðallega geðraskanir. Urður sagðist telja að það þyrfti að skoða afdrif barna sem voru á örðum vistheimilum. Jón Magg, formaður Samtaka vistheimilabarna ræddi þetta í Síðdegisútvarpinu en hann var sjálfur meðal annars vistaður í Breiðavík á Kumbaravogi og fleiri heimilum þegar hann var barn.
Afmælisbarn dagsins að öðrum ólöstuðum var tvímælalaust Dolly Parton sem fagnaði 80 ára afmæli 19. Janúar. Ferill hennar spannar mögulega 70 ár og ekki eingöngu hefur Dolly náða snerta allan heiminn með tónlist sinni, söng og textum heldur er hún marglaga manneskja sem hefur sýnt það hvernig hún heldur með mennskunni og gefið af sér á mörgum vígstöðum. Þannig tók hún t.a.m. öflugan þátt í baráttunni við kórónuveiruna skæðu á sínum tíma og hefur í gegnum tíðina eflt læsi barna með bókaklúbbi sínum og bókagjöfum. Í gegnum bókaklúbbinn kynntist Rakel Mjöll Leifsdóttir, sem sjálf er tónlistarkona, Dolly í fyrstu en hefur fylgt henni síðan og endaði á því að skrifa ritgerð um hana í listnámi sínu í Brighton. Við hringdum í Rakel sem ræddi Dolly við okkur í beinni frá Lundúnum.
Vagninn á Flateyri hefur gegnt lykilstöðu í skemmtanamenningu Önfirðinga og Vestfirðinga allra allt frá því að þar opnaði sjoppa í fyrsta. snemma á níunda áratug síðustu aldar en nú má segja að það sé algjört skyldustopp allra sem ferðast um norðanverða Vestfirði að líta inn á Vagninn. Staðahaldarar hafa ætíð farið ótroðnar slóðir þegar kemur að menningar-dagskránni og markaðssetningu staðarins og nú á dögunum mátti lesa örlitla auglýsingu í einkamáladálki Bændablaðsins þar sem Vagninn auglýsti eftir félagsskap á
laugardögum í vetur. Við hringdum í Vagns-stjórann Sindra Pál Kjartansson og forvitnuðumst um einkamál þeirra á Vagninum.