Kristján Freyr og Margrét Marteinsdóttir stýrðu þætti dagsins.
,,Ég er þetta eina stig! Ég er þetta lið,” sagði Anna Svava Knútsdóttir, leikkona með meiru í Síðdegisútvarpinu í lok afar taugatrekkjandi leiks Íslands og Sviss á EM karla í handbolta. Anna Svava er ein þeirra sem lagt hefur leið sína til Svíþjóðar til að styðja landsliðið og hún var í höllinni í Malmö þar sem leikurinn fór fram. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður fór svo yfir stöðu Íslands á mótinu og möguleika liðsins til að komast í undanúrslitin.
Streita sem tengist vinnu, kvíði og þunglyndi eru eitt stærsta heilsufarsvandamál vinnandi fólks í Evrópu. Álag er að sliga fjölda fólks. Forföll vegna veikinda hafa aukist umtalsvert á Norðurlöndunum undanfarin ár og það er að miklu leyti rakið til streitu. BHM telur að undanfarið hafi einfölduð mynd verið dreginn upp í umræðu um þessi mál. Ýjað hafi verið að því að um sé að ræða vandamál einstaklinga en BHM segir að gögn frá Noregi Svíþjóð og Danmörku bendi til þess að kerfislegar ástæður liggi að baki. Álag, mannekla og sífellt kröfuharðara vinnuumhverfi. Staða sem ýtir undir streitu sem geti valdið kvíða og þunglyndi. Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur BHM hefur rýnt í nýjustu gögn um veikindaforföll og hann kom í Síðdegisútvarpið og sagði frá því helsta sem þar kemur fram.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur fyrir opnum fyrirlestrum í vetur þar sem sjónum er beint að stöðu og framtíð hönnunar og arkitektúrs. Á fyrsta fyrirlestri nýs árs beina þau sjónum að sköpunarkraftinum, hugmyndauðgi og hvernig má leysa áskoranir með sterkum hugmyndum og skapandi hugsun. Þau Eðvarð Atli Birgisson, grafískur hönnuður á hönnunarstofunni Kolibri og Rán Flygenring, hönnuður, mynd- og rithöfundur eru meðal þeirra sem halda örstutt erindi um sköpunarkraftinn og þau komu í Síðdegisútvarpið.
Um helgina verður fyrsta stóra fjöldasamkoman í Grindavík eftir rýmingu þar.
Það er auðvitað þorrablótið og okkur skilst að það sé metaðsókn. Þorrablótið verður í íþróttahúsinu í Grindavík. Sigurður Þyrill Ingvason veit allt um það enda er hann er í nefndinni og hefur til dæmis tekið þátt í að gera Þorravídeóið 2026. Hann kom í Síðdegisútvarpið og sagði meðal annars að þar sem Grindvíkingar búa nú hér og þar um landið skipti miklu máli að hittast sem flest á þorrablótinu.