Nú er þrettánda vika vetrar og föstudagur sem þýðir að mánuðurinn þorri er að hefjast. Og á þessum fyrsta degi þorra er bóndadagur. Dagrún Jónsdóttir þjóðfræðingur kom í Síðdegisútvarpið og talaði um sögu dagsins. Í ritinu Saga daganna eftir Árna Björnsson segir að upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkominn enda ljóst að fyrsti dagur þorra hafi verið tileinkaður húsbóndanum. Þar segir líka að hvortveggja sé til að húsbóndabndum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið hafi þó ekki verið kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19.aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn en óljóst hve almennur sá siður var og hver uppruni hans var.
Stöndum með Grænlandi er yfirskrift stuðningsfundar með sjálfsákvörðunarrétti Grænlands sem fer fram á morgun, laugardag klukkan 12 á hádegi. Steinunn Þóra Árnadóttir fyrrverandi formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins flytur þar tölu, Anton Helgi Jónsson les ljóð og fleira verður mögulega á dagskránni. Við heyrðum í Steinunni Þóru sem sagði okkur allt um útifundinn á morgun.
Ný tónlistarstefna Ríkisútvarpsins var kynnt á opnum fundi hér í húsi RÚV í dag. Hún tekur mið af því að Ríkisútvarpið taki virkan þátt í íslensku menningarlífi með því að skapa, miðla og fjalla um öll svið menningar, skrásetja menningu samtímans með upptökum og beinum útsendingum og endurspegla fjölbreytileika samfélagsins í dagskrá sinni. Í tónlistarstefnunni er lögð áhersla á fjölbreytni í tónlistarvali og leitast við að hafa jafnvægi milli tónlistarstefna, kyns og aldurs höfunda og flytjenda. Rás 2 fylgir þessum viðmiðum og hefur lagt áherslu á þau í mörg ár og dagskrárstjórinn Matthías Már Magnússon sem hefur unnið að stefnunni ásamt fjölda fólks sagði Síðdegisútvarpinu frá inntakinu og uppleggi Rásar 2.
Geðhjálp minnir líkt og áður á þorranum á geðræktarátakið G-vítamín enda þurfum við öll að hlúa að geðinu sérstaklega í skammdeginu. Guðný Guðmundsdóttir sem er verkefnastjóri hjá Geðhjálp kom í Síðdegisútvarpið og sagði frá G-vítamíni.
Tónabíó í Skipholti skipaði stóran sess í bíóflóru höfuðborgarbúa frá því á sjöunda áratug síðustu aldar þar sem að Tónlistarskólinn í Rvk hélt úti bíóinu sem fjáröflunarleið og fjölmargir eiga þaðan ríkar minningar. Enn aðrir tengjast húsinu í gegnum bingó en þá voru húsakynnin kölluð Vinabær og fjölmargir sem sóttu bingókvöldi þar í áratugi. Síðustu 4 ár hefur Reykjavík bruggfélag komið sér fyrir í húsinu og staðið fyrir fjölbreyttri starfsemi í formi tónleika og annarra viðburða. En gamli bíó- og bingósalurinn hefur ekki enn verið starfræktur en nú slær til tíðinda. Við í Síðdegisútvarpinu heimsóttum Tónabíó og hittum fyrir Sigurðs Snorrason einn af vertunum þar og hann sagði okkur frá starfseminni og hvað væri fram undan.
Systurnar Guðríður og Hafdís Guðjónsdætur, sem voru miklar handboltakempur á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda eru föstudagsgestir Síðdegisútvarpsins. Þær fylgjast vel með EM sem nú stendur yfir og Guðríður eða Gurrý eins og hún er alltaf kölluð sá fyrstu þrjá leiki Íslands úti. En ekki nóg með það því að í þessari viku voru 37 ár liðin síðan þær systur spiluðu tvo leiki á móti þá stórliði Spartak Kiev sem þá voru sovéskir meistarar í handbolta. Gurrý og Hafdís spiluðu með Fram sem þá voru Íslandsmeistari í handbolta hér heima og leikirnir gegn Spartak Kiev fóru fram í Laugardalshöll. Yfirskrift umfjöllunar DV um leikinn þann 23.janúar 1989 er : Hrammur birnu reyndist of þungur og síðan segir ,,sovésku valkyrjumar úr Kænugarði komnar áfram eftir tvo sigra á Fram.” Systurnar Gurrý og Hafdís rifjuðu þessa leiki upp í Síðdegisútvarpinu og sögðu okkur skemmtilegar handboltasögur.