Það voru þau Margrét Marteinsdóttir og Kristján Freyr sem stýrðu þættinum að þessu sinni.
Trump Bandaríkjaforseti steig niður af sviðinu á alþjóðaefnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss um miðjan dag eftir að hafa átt þar sviðið í um einn og hálfan tíma. Ræðan hans var löng og fjölmiðlar víða um heim sýndu beint frá henni. Meðal þess sem vakti athygli var að hann nefndi Ísland nokkrum sinnum en talið er að hann hafi ruglast og ætlað að segja Grænland. Hann kenndi Íslandi til dæmis um dýfu á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í gær. Hann sagði að Bandaríkin væru að hjálpa NATO og Evrópu. „Þar til ég sagði þeim frá Íslandi um daginn þá elskuðu þeir mig. Þeir kölluðu mig pabba,“ sagði Trump. Oddur Þórðarson, fréttamaður hér á RÚV hefur fylgdist með útsendingunni frá Davos í dag og er kominn til okkar í Síðdegisútvarpið.
Trump sagðist í ræðu sinni ætla að hitta Zelensky Úkraínuforseta í Davos og sagði hann jafnvel vera í salnum að hlusta á sig tala. Zelensky var hins vegar búinn að tilkynna að hann kæmi ekki til Davos, hann yrði í Úkraínu í ljósi árása Rússa á orkuinnviði landsins. Neyðarástand hefur skapast vegna árásanna og þúsundir borgarbúa Kyiv eru án hita. Mikið frost er í borginni og fólk leitar skjóls í upphituðum tjöldum. Við hringdum til Kyiv og ræddum við Óskar Hallgrímsson, blaðamann og ljósmyndara sem þar býr ásamt Mariika Lobyntseva. Hann sagði okkur frá lífinu í borginni en sumir borgarbúar eru enn að fara daglega í vinnu og börn í skóla. Í lok dag leita sumar fjölskyldur skjóls á lestarstöðum. Þannig er daglegt líf fólks í hættulegum og ógnvekjandi aðstæðum. Óskar og Mariika búa í innsta hring loftvarna en hafa komið sér upp hálfgerðu byrgi á baðherberginu.
Vinavoðir er heiti á ákveðnu og afar fallegu hannnyrðaverkefni sem byggir á hugsjón Prayer Shawl Ministries úr Bandaríkjunum þar sem fjöldi handavinnuhópa hefur verið stofnaður til að prjóna og hekla sérstök bænasjöl. Bænasjöl þessi hafa verið gefin áfram sem vinarvottur og hlýjar blessunaróskir til sjúklinga og annarra sem eru staddir á krossgötum í lífi sínu. Þannig berst blessunin áfram lykkju fyrir lykkju, mann fram af manni. Félagsskapur um Vinavoðir hittist á fimmtudögum í Grensáskirkju og til að segja okkur frá verkefninu og félagsskapnum kemur hún Hólmfríður Ólafsdóttir djákni þar á bæ.
Á dögunum lýsti Sigríður Jörundsdóttir upplifun sinni á samfélagsmiðlum eftir að hafa verið stoppuð af ókunnum manni á bílastæði fyrir utan Bónusverlsun og þar fjargviðraðist viðkomandi við Sigríði fyrir að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða en virtist með öllu heil til heilsunnar. Þrátt fyrir að geta bent á þartilgerðan bláan miða í rúðu bifreiðar sinnar virtist það trufla manninn að Sigríður virtist ekki líta út fyrir að hafa nokkra hreyfihömlun. Þetta vakti athygli margra og þ.á.m. okkar en á vefsíðu Öryrkjabandalags Íslands eru upplýsingar um stæði fyrir hreyfihamlað fólk og er einmitt talað um að hreyfihömlun sjáist ekki alltaf utan á fólki. Við veltum fyrir okkur hvort algengt sé að fólk í sömu stöðu lendi í álíka tortryggni almennings og hann Bergur Þorri Þorgrímsson hjá ÖBÍ ræðir við okkur um þau mál hér innan skamms.
Kraftur-félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein er mögulega sá klúbbur sem enginn vill vera í en þar tekur félagsfólk velá móti ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum, veitir þeim stuðning og léttir þeim lífið með fjölbreyttri þjónustu. Ein helsta fjáröflunarleið Krafts er sala perluarmbanda með áletruninni „Lífið er núna“. Armböndin eru eingöngu framleidd af sjálfboðaliðum sem leggja félaginu lið með því að bjóða fram krafta sína. Nú á sunnudag verður Perlað af krafti hér í Reykjavík, í Hörpu og þær Guðný Sara fjáröflunarstjóri og Sólveig Ásta framkvæmdarstjóri hjá Krafti vita allt um viðburðinn og líta við hjá okkur á eftir.
Feita hjartað er nafn glænýrrar gamansýningar Halldórs Laxness Halldórssonar, Dóra DNA sem hann frumsýndi í Austurbæjarbíói á dögunum, Í kynningu segir „Maðurinn sem einnig hefur verið nefndur Gene Hackman sinnar kynslóðar, hinn íslenski Colonel Sanders,“ en svo er hann vitanlega bæði barnabarn og nafni nóbelsskáldsins, sjónvarpsmaður, rappari, rithöfundur og margt fleira. Í sýningunni Feita hjartað kafar Dóri ofan í kviku tilverunnar og skoðar sjálfan sig að innan. „Komið og sjáið miðaldramann í tilvistarkreppu, það er bæði fyndið og sorglegt“ segir hann í auglýsingu. Við fáum Dóra í heimsókn í seinni hluta þáttar.